Vikulok
Mig langaði til að breyta aðeins til og vera með vikulegar færslur sem fela ekki endilega í sér uppskriftir. Þessar færslur verða örugglega frekar óskipulagðar til að byrja með en mig langar til að deila aðeins meira með ykkur en bara því sem ég hef verið að sýsla í eldhúsinu.
Kannski er það kuldinn sem fær mig til að dreyma um Ítalíu að sumri til en ég hef ekki hætt að hugsa um ferðalag þangað síðan ég rakst á þessi kot til leigu á Airbnb. Þekkið þið Airbnb? Þessi síða er algjör snilld og gerir manni kleift að leigja herbergi/íbúðir/hús/villur/eyjur alls staðar í heiminum. Og oftast á mun lægra verði en hótel. Kynningarmyndband þeirra finnið þið hér. Við leigðum íbúð í Montréal þegar við fórum þangað síðasta sumar og spöruðum heilmikið í matar- og hótelkostnað.
Og meira um Ítalíu (ég er að þróa með mér smá þráhyggju, ég er viss um það). Ég fann tvö blogg um ítalska matseld um daginn. Emiko Davies býr í Ástralíu en skrifar um mjög hefbundna ítalska matseld. Valeria Necchio býr í London og skrifar um heilsusamlegan og einfaldan mat. Síðurnar þeirra eru mjög fallegar og listrænar.
Mér finnst Instagram vera skemmtileg leið til að miðla hluta af lífi manns. Ég er virk þar og það má finna mig undir nafninu ivesturheimi. Ég held mikið upp á bóndann í Suður-Englandi, ljósmyndarann í New York og listakonuna og ferðalanginn frá Brooklyn.
Ég er búin að hlusta mikið á íslenska tónlist undanfarið. Platan Í annan heim með Rökkurró er í miklu uppáhaldi hjá mér og hefur verið í sífelldri spilun síðasta árið. Þessir krakkar eru alveg yfirgengilega hæfileikarríkir og ég bíð spennt eftir næstu plötu.
Vonandi áttuð þið góða viku!
Ég skil svo vel airbnb-þráhyggjuna enda hef ég eydd dágóðum tíma þar sjálf milli svefns og vöku í draumaheimi. Trúi því ekki enn að draumurinn minn sé að rætast að fara í sumar!
Þú ert líka að taka þetta með svo miklu trompi Auður!
Hallgrímur er byrjaður að rannsaka Airbnb :-)
Áfram Hallgrímur!
Mikið líst mér vel á vikulokin!
Takk elsku Anna Pála!
Nýlega byrjuð að lesa bloggið þitt og langar að prófa margar uppskriftir. Gangi þér vel með „vikulokin“, skemmtileg hugmynd.
Takk fyrir það Katla!
Vikulokin skemmtileg! Aldrei of mikið af ítalskri matargerð! Þekkirðu blað sem heitir Lucky Peach? https://store.mcsweeneys.net/products/lucky-peach-subscription
Takk Soffía! Og já, ég þekki þetta blað og mér finnst það æði en ég tími aldrei að kaupa eintak…
Styð vikulokin! Er sammála með Rökkurró, ég byrjaði að hlusta á Rökkurró fyrir þitt tilstilli um borð í Icelandair vél fyrir rúmu ári síðan og síðan þá hefur þetta verið go-to tónlistin mín til að komast í góða einbeitingu :-)
Þú ert snillingur Inga Þórey. Og með góðan tónlistarsmekk ;)