Skip to content

Granóla með hunangi og möndlum

Þegar systir mín var í heimsókn þá borðuðum við morgunmat á ástralska kaffihúsinu Milk bar sem er hérna í nánasta nágrenni. Ég fékk mér granólað þeirra sem þeir blanda og rista á staðnum með grískri jógúrt og ég hef varla hugsað um annað síðan. Ég vakna á morgnana og það eina sem mig langar virkilega í að borða er granólað þeirra og á hverjum morgni þarf ég að minna mig á að ég verð að sýna smá aga og skynsemi og fá mér eitthvað að nasla heima. Því að þetta blessaða granóla þeirra með gríska jógúrtinu og ávöxtum kostar átta dali. Átta dali! 

Eins og skynsamri og ágætlega eldhúsvanri manneskju sæmir þá ákvað ég bara að taka málin í mínar eigin hendur. Ég týndi fram þær hnetur, fræ, hafra og þurrkaða ávexti sem ég fann inni í skáp, sullaði slatta af hunangi yfir og skellti inn í ofn. Eftir nokkrar mínútur byrjaði íbúðin að ilma af ristuðum hnetum og hunangi og eftir nokkrar mínútur í viðbót tók ég út fallega gyllt granóla með möndlum og pekanhnetum.

Og núna á ég stóra krukku af granóla inni í ísskáp og get búið mér til þennan dýrindis morgunmat fyrir miklu miklu minna en átta dali. Ég set smá hreina gríska jógúrt í skál, set smá hunang út í jógúrtið og hræri, sáldra granóla yfir og toppa með ferskum berjum (í þetta sinn bláberjum). Ekki láta plata ykkur til að kaupa lítinn poka af granóla á himinháu verði því heimaristað granóla er svo einfalt og svo ljúffengt. Uppskriftina má auðvitað laga að því sem til er í skápunum hjá ykkur – notið þær hnetur sem þið hafið við höndina, sleppið sykrinum ef þið eruð ekki sömu sætindagrísir og ég og skellið smá þurrkuðum ávöxtum eða súkkulaðidropum út í ef slíkt heillar ykkur.

Granóla með hunangi og möndlum

  • 300 g hafrar
  • 70 g möndlur, heilar eða sneiddar
  • 30 g pecanhnetur (eða aðrar hnetur), heilar eða saxaðar
  • 40 g sólblómafræ
  • 40 g graskersfræ
  • 1/4 tsk salt
  • 2 msk púðursykur (má sleppa)
  • 30 g smjör, brætt
  • 140 ml hunang
  • 2 dl þurrkaðir ávextir, súkkulaðidropar eða annað (ég notaði þurrkuð trönuber og rúsínur)

Hitið ofninn í 165°C/325°F. Takið fram ofnplötu og leggið bökunarpappír ofan í, setjið til hliðar.

Blandið saman höfrum, möndlum, pecanhnetum, fræjum, salti og sykri saman í stórri skál. Hellið smjöri og hunangi yfir og blandið öllu mjög vel saman.

Bakið í 30 – 40 mínútur, eða þar til granólað verður gyllt á litinn. Hrærið í því af og til svo að það myndist ekki stórir klumpar og granólað verður jafnt ristað. Því dekkra sem granólað verður (án þess að brenna) því stökkara verður þar.

Takið úr ofninum og leyfið að kólna alveg. Blandið þá þurrkuðum ávöxtum og/eða súkkulaði saman við.

Best er að geyma granólað í kæli eða á öðrum köldum stað. Það ætti að vera gott í ca. 3 vikur.

Prenta uppskrift

6 athugasemdir Post a comment
  1. Óli Hilmar #

    Dreif mig loksins í að skella í Granóla eftir að hafa lesið færsluna þína. Útkoman var mjög góð. Snilldin er að maður notar í þetta restar af hinum og þessum fræjum, hnetum og þurrkuðum ávöxtum sem annars hefði endað e-s staðar neðst í eldhússkápnum.

    06/06/2012
    • Frábært! Ég veit fátt betra þessa dagana en að fá mér svona í morgunmat :)

      06/06/2012
  2. Guðrún #

    Það er líka æðislegt að setja smá kanil og þurrkað engifer í blönduna. Svo er líka mjög gott að blanda hunanginu eða sírópi (ef það er notað) saman við smá eplamauk og hræra því svo saman við blönduna áður en hún fer í ofninn.

    09/06/2012
  3. Ég er núna búin að gera tvær granóla uppskriftir hjá þér og er alveg húkkt! Svakalega gott með grískri jógúrt og hunangi. Algjört nammi :)

    29/04/2013
  4. Salbjörg #

    Þetta var bara ég hérna fyrir ofan :)

    29/04/2013
    • Haha :) Gott að þér líkar vel Salsa mín.

      29/04/2013

Skildu eftir svar við Salbjörg Hætta við svar