Granóla með kókos og möndlum
Ég er búin að borða hafragraut á hverjum morgni í metlangan tíma. Hafragrautur er frábær og ódýr leið til að byrja daginn og býður upp á ótalmarga möguleika – Elmar fær sér graut með frosnum bláberjum, ég fæ mér með hunangi og hnetum, og á sumrin þá fáum við okkur fersk ber út á grautinn. Lífið er dottið í ákveðna rútínu, vetrargráminn hangir yfir borginni og berst ötullega gegn vorinu. Ég tók því ákvörðun um að breyta aðeins til og búa til granóla til að borða í morgunmat.
Þetta granóla er frekar sætt (ég ætla að minnka aðeins sykurmagnið þegar ég bý það til næst) en það er líka stórgott. Kakó, kókos, möndlum og höfrum er velt upp úr hunangskaramellu og látið ristast í ofni þar til það verður stökkt og gullið. Ég borða það á morgnana með grískri jógúrt og stelst til að sáldra því yfir rjómaís á kvöldin. Svolítið syndsamlegt en ágætis huggun á meðan ég bíð eftir vorinu.