Skip to content

Posts from the ‘Granóla’ Category

Granóla með kókos og möndlum

Ég er búin að borða hafragraut á hverjum morgni í metlangan tíma. Hafragrautur er frábær og ódýr leið til að byrja daginn og býður upp á ótalmarga möguleika – Elmar fær sér graut með frosnum bláberjum, ég fæ mér með hunangi og hnetum, og á sumrin þá fáum við okkur fersk ber út á grautinn. Lífið er dottið í ákveðna rútínu, vetrargráminn hangir yfir borginni og berst ötullega gegn vorinu. Ég tók því ákvörðun um að breyta aðeins til og búa til granóla til að borða í morgunmat.

Þetta granóla er frekar sætt (ég ætla að minnka aðeins sykurmagnið þegar ég bý það til næst) en það er líka stórgott. Kakó, kókos, möndlum og höfrum er velt upp úr hunangskaramellu og látið ristast í ofni þar til það verður stökkt og gullið. Ég borða það á morgnana með grískri jógúrt og stelst til að sáldra því yfir rjómaís á kvöldin. Svolítið syndsamlegt en ágætis huggun á meðan ég bíð eftir vorinu.

SJÁ UPPSKRIFT

Granóla með hunangi og möndlum

Þegar systir mín var í heimsókn þá borðuðum við morgunmat á ástralska kaffihúsinu Milk bar sem er hérna í nánasta nágrenni. Ég fékk mér granólað þeirra sem þeir blanda og rista á staðnum með grískri jógúrt og ég hef varla hugsað um annað síðan. Ég vakna á morgnana og það eina sem mig langar virkilega í að borða er granólað þeirra og á hverjum morgni þarf ég að minna mig á að ég verð að sýna smá aga og skynsemi og fá mér eitthvað að nasla heima. Því að þetta blessaða granóla þeirra með gríska jógúrtinu og ávöxtum kostar átta dali. Átta dali! 

Eins og skynsamri og ágætlega eldhúsvanri manneskju sæmir þá ákvað ég bara að taka málin í mínar eigin hendur. Ég týndi fram þær hnetur, fræ, hafra og þurrkaða ávexti sem ég fann inni í skáp, sullaði slatta af hunangi yfir og skellti inn í ofn. Eftir nokkrar mínútur byrjaði íbúðin að ilma af ristuðum hnetum og hunangi og eftir nokkrar mínútur í viðbót tók ég út fallega gyllt granóla með möndlum og pekanhnetum.

Og núna á ég stóra krukku af granóla inni í ísskáp og get búið mér til þennan dýrindis morgunmat fyrir miklu miklu minna en átta dali. Ég set smá hreina gríska jógúrt í skál, set smá hunang út í jógúrtið og hræri, sáldra granóla yfir og toppa með ferskum berjum (í þetta sinn bláberjum). Ekki láta plata ykkur til að kaupa lítinn poka af granóla á himinháu verði því heimaristað granóla er svo einfalt og svo ljúffengt. Uppskriftina má auðvitað laga að því sem til er í skápunum hjá ykkur – notið þær hnetur sem þið hafið við höndina, sleppið sykrinum ef þið eruð ekki sömu sætindagrísir og ég og skellið smá þurrkuðum ávöxtum eða súkkulaðidropum út í ef slíkt heillar ykkur.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: