Skip to content

Rísottó með sveppum og tímíani

Hrekkjavaka var um síðustu helgi og það er gaman að sjá hvað Bandaríkjamenn taka þennan dag (og kvöld) hátíðlega. Það virðast allir klæða sig í búning óháð aldri og í New York er haldin árleg skrúðganga sem rúmlega milljón manns fylgjast með. Hverfið okkar er frekar mikið barnahverfi og hér fóru foreldrar í búninga með börnunum sínum og sníktu nammi af búðareigendum og nágrönnum. Helgin var sérstaklega skemmtileg því við fengum góðan gest frá Berlín, hana Guðnýju mína, sem ég hef varla séð frá því að ég flutti frá Edinborg. Það var því mikið drukkið af hvítvíni, spjallað og slúðrað og ég gat auðvitað ekki annað en að bjóða henni upp á heimatilbúinn mat. Ég varð líka mjög spennt því þá gat ég loksins prófað að búa til þetta rísottó (sem mér hefur annars fundist aðeins of mikið maus fyrir okkur tvö).

Ég og Guðný fórum því í matvörubúðina góðu og völdum sveppi til að steikja í réttinn. Við keyptum kantarellusveppi, portobellosveppi og kastaníusveppi. Maður þarf auðvitað ekki að vera svo fínn á því en mér finnst að fyrst sveppirnir eru í svona miklu aðalhlutverki að maður á (að minnsta kosti) að splæsa í kastaníusveppi. Rísottó krefst þolinmæði og alúðar ef þú vilt að rétturinn heppnist vel, þannig að það er kannski ekki sniðugt að búa hann til þegar maður er ör í skapi og við það að brjóta trésleifina á hausnum á maka/vini/meðleigjanda sínum við minnsta tilefni. (Ekki það að ég hóti Elmari með trésleifinni…oft)

Rísottó með sveppum og tímíani

(Jamie Oliver: The Naked Chef)

 • 250 g sveppir
 • 3 msk ólívuolía
 • 1 (lítil) handfylli tímían, laufin tekin af og gróft söxuð
 • 1 hvítlauksgeiri, fínt saxaður
 • Salt
 • 1 handfylli steinselja, gróft söxuð
 • 1/2 tsk chilipipar
 • 1/2 sítróna, safinn kreistur úr
 • Ferskur pipar

—————————————————————————————–

 • 1 lítri kjúklinga eða grænmetissoð
 • 2 msk ólívuolía
 • 3 skallotlaukar, fínt saxaðir
 • 1 sellerístöngull, fínt saxaður
 • Salt og pipar
 • 2 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
 • 400 g rísottó hrísgrjón
 • 125 ml þurrt hvítvín
 • 70 g smjör
 • 100 g rifinn parmesanostur

Aðferð:

Skerið sveppina í bita – ég reyndi að skera þá ekki í of smáa bita. Steikið svo sveppina í 2 til 3 skömmtun (annars steikjast þeir ekki eins jafnt og vel). Hitið olíu í pönnu á háum hita, bætið svo sveppum og tímíani við og steikið í ca. 1 mínútu. Bætið svo við hvítlauk og smá salti og steikið í ca 2 mínútur. Gerið þetta við alla skammtana og smakkið svo til saltið. Hrærið svo (varlega) saman við steinselju, sítrónusafa, chilipipar og ferskum pipar. Smakkið aftur til. Þegar sveppirnir eru tilbúnir takið helminginn frá og saxið hann gróflega. Reynið svo að halda (ósöxuðu) sveppunum á ágætlega hlýjum stað, setjið álfilmu yfir skálina sem þeir eru geymdir í eða geymið til að hita aðeins aftur á pönnu áður en þeim er stráð yfir réttinn.

Hitið kjúklingasoðið í potti. Hitið ólívuolíuna í öðrum stórum potti og steikið laukinn og selleríið ásamt smá salti í ca. 3 mínútur. Bætið svo við hvítlauk og steikið í ca. 2 mínútur. Þegar grænmetið hefur mýkst þá er rísottóhrísgrjónunum bætt við og hitinn hækkaður smávegis.

Hrærið hægt og stöðugt í pottinum og leyfið hrísgrjónunum að steikjast. Þú vilt samt ekki að hrísgrjónin fari að brúnast – ef það er tilfellið lækkið þá hitann undir pottinum. Munið að hrísgrjónin þurfa að vera á stöðugri hreyfingu. Eftir um það bil 3 mínútur ættu hrísgrjónin að fara að verða glær – það þýðir að þau eru að drekka í sig grænmetið og olíuna. Þegar þau virðast flest vera orðin glær, bætið þá við víninu og passið að hræra vel í meðan hrísgrjónin drekka í sig vínið.

Þegar hrísgrjónin virðast hafa drukkið í sig vínið bætið þá við einni ausu af soði ásamt smá salti. Stillið hitann þannig að blandan er á suðupunkti án þess þó að allt bullsjóði (annars verða þau ekki soðin í gegn). Eftir að fyrsta ausan af soði hefur verið bætt út í þá þar fað setja söxuðu sveppina saman við. Hrærið allt hægt og varlega saman þangað til að hrísgrjónin hafa tekið upp allan vökvann. Bætið þá næstu ausu við, hrærið þangað til að vökvinn hefur gengið inn í hrísgrjónin og bætið svo næstu ausu við og þannig koll af kolli. Þetta ætti að taka ca. 15 mínútur en passið að smakka alltaf reglulega til að fylgjast með hvort að hrísgrjónin séu tilbúin. Þau eiga að vera mjúk með smá biti í. Bætið líka salti með soðinu af og til og passið að smakka saltið til líka.

Þegar hrísgrjónin eru til þá er slökkt undir p0ttinum og smjörinu og parmesanostinum bætt við. Hrærið þessu saman við og passið að allt smjörið hefur bráðnað og dreifst vel. Bætið þá restinni af sveppunum saman við og hærið varlega saman við eða leyfið þeim að liggja efst á réttinum.

Berið strax fram meðan rétturinn er heitur.

Fyrir 4-5

11 athugasemdir Post a comment
 1. Emmi #

  ELSKA ÞIG!

  03/11/2010
 2. Guðný Ebba #

  NAMM!

  (haha!) besti matur sem ég hef á ævinni minni smakkað í félagskap sem sæmir kóngafólki . yndislegt yndislegt kvöld.

  xxxx

  03/11/2010
 3. Emmi #

  Ekki lemja mig með trésleifinni samt.

  03/11/2010
 4. Guðný Ebba #

  lemdu hann kannski bara smá.

  03/11/2010
 5. Haha. Þið eruð agaleg!

  03/11/2010
 6. Emmi #

  HEY!

  03/11/2010
 7. Kári #

  Þú og Sif ættuð að deila eldhúsi í nokkra klukkutíma. Það kæmi áreiðanlega eitthvað gott að borða úr því

  04/11/2010
 8. Teitur #

  Risotto er einn af þessum réttum sem þarf að elda af mikilli alúð og áhuga.

  05/11/2010
 9. Soffía Tinna #

  Hæ, mér líst svakalega vel á thennann rétt, hvad er madur svona ca. lengi ad elda hann?

  27/09/2012
  • Það tekur rúman klukkutíma að skera niður hráefni og elda réttinn. Mig minnir að við höfum gefið okkur svona 1 1/2 tíma þegar við höfum eldað hann fyrir gesti. Það að steikja sveppina í pörtum og hægsjóða soðið saman við hrísgrjónin er svolítið þolinmæðisverk og tekur sinn tíma.

   03/10/2012

Trackbacks & Pingbacks

 1. Bananakaka með súkkulaðibitum | Eldað í Vesturheimi

Færðu inn athugasemd við Nanna Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: