Skip to content

Posts from the ‘Vöfflur’ Category

Vöfflur með brúnuðu smjöri

Eftir að ég byrjaði að vinna úti þá hefur fundist minni tími til að sinna blogginu. Ég labba rösklega heim af strætóstoppistöðinni í lok dags og reyni að eyða góðum tíma með Þórdísi á meðan við græjum kvöldmat og svo tekur við kvöldbað hennar og svæfing. Myndavélin liggur ónotuð uppi í hillu og ég verð að viðurkenna að ég finn ekki fyrir nógu miklum innblæstri við myndatöku þegar allt er orðið dimmt og kvöldrútínan rekur á eftir manni.

Það hefur þó margt skemmtilegt gerst undanfarið. Ég fékk að vera með í kökublaði Gestgjafans og bakaði fjórar ljúffengar kökur í tilefni þess. Ég er stóránægð með hvernig tókst til og blaðið er stútfullt af góðum uppskriftum. Ég hef lesið Gestgjafann í fjöldamörg ár og finnst hálfsúrrealískt að þarna í miðju blaði er stór mynd af mér ásamt viðtali. Sérstaklega með tilliti til þess að fyrir fimm árum síðan þorði ég varla að kveikja á ofninum og þurfti að stunda djúpöndun þegar ég átti að elda fyrir aðra.

Ég landaði líka nýrri vinnu sem ég er afar spennt fyrir og get ekki beðið eftir að byrja í. Elmar keypti handa mér blóm daginn sem ég skrifaði undir ráðningarsamning og við héldum upp á það með vínglasi niður í bæ.

Skammdegið er aðeins farið að bíta mig í afturendann og ég finn að ég þarf að venjast aftur myrkrinu sem skellur á alltof snemma og dregur sig í hlé alltof seint. Ég hef þó sett upp jólaseríur og ætla að fara að skreyta íbúðina til að lífga aðeins upp á tilveruna.

Fyrir nokkrum vikum síðan kvartaði ég sáran undan því að hafa ekki fundið hina einu sönnu vöffluuppskrift. Og þó að ég haldi áfram leit minni að fullkomnun þá hef ég staldrað aðeins við þessar vöfflur og búið þær til nokkrar helgar í röð. Þær eru mjög góðar, eilítið stökkar að utan og með bragði af dökkum púðursykri og brúnuðu smjöri. Svolítið syndsamlegar en kaldar og dimmar vetrarhelgar kalla á smá synd og sælu.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: