Skip to content

Posts from the ‘Nautakjöt’ Category

Hægelduð nautaskammrif í rauðvíni með piparrótarsósu

Eins frábært, yndislegt og notalegt það er að eyða jólunum tvö saman með fullt af góðum mat og víni þá erum við orðin ágætlega spennt yfir því að fljúga heim í vetrarríkið og fagna áramótunum í góðum hópi fólks á Akureyri. Allir vinir okkar flúðu borgina yfir hátíðirnar og New York er því eilítið einmanaleg. Og fyrir utan allt stórskemmtilega og hressa fólkið sem við fáum að hitta á farsældar fróni þá mun ég njóta þess að fara í sund, komast í almennilega sturtu, fara í fjallgöngu, horfa á norðurljósin, sitja ein á einhverri hæð úti í víðáttunni og njóta kyrrðarinnar, laus við allt borgaráreiti.

Ég má til með að deila með ykkur jólamatnum okkar á Sterling Place þó að myndirnar séu ekki upp á sitt besta. Þessi réttur krafðist einhverrar fyrirhafnar og ég hafði vægar áhyggjur af því að ég myndi einhvern veginn ná að klúðra honum (eins og gerist oft þegar ég er búin að einsetja mér að maturinn eigi að vera ekkert minna en stórkostlegur). Við elduðum í sameiningu, Elmar steikti kjötið og sá um mestalla eldamennskuna á meðan ég tók myndir og las upp úr matreiðslubókinni. Eftir á að hyggja hefði ég ekki átt að hafa svona miklar áhyggjur, rétturinn er í raun ekkert svo flókinn og hægeldað kjöt hefur aldrei klikkað hjá okkur.

Skammrifin (e. short ribs) urðu meyr og safarík eftir alla eldunina, sósan var margslungin og bragðrík og piparrótarsósan gaf manni smá hita og ferskleika. Við bárum kjötið fram með mauki úr starahnýði (e. jerusalem artichoke) og klettasalati með geitaosti og tómötum. Þetta var sannkallaður hátíðarmatur og ég hlakka mikið til að fá tækifæri til að matreiða þennan rétt aftur.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: