Skip to content

Sesar salat

Bloggið mitt er búið að vera ansi dautt þennan mánuðinn. Það er nú eiginlega góðs viti (fyrir mig) því það þýðir að það er búið að vera nóg að gera og skemmtilegt að vera til. Ég fór í vikuheimsókn til Íslands og naut mín í fimbulkulda undir norðurljósum og kappklædd íslenskum lopa. Það skemmdi auðvitað ekki fyrir að geta farið aftur í gamla herbergið sitt og fá ljúffengan mat frá pabba og sitja að hvítvínsdrykkju fram á kvöld með múttu. Tíminn leið hratt og áður en ég vissi af var ég komin aftur upp í flugvél á leið vestur um haf. Lestarferðin frá flugvellinum var eiginlega frekar skemmtileg á milli þess sem ég hélt fast utan um allar töskur mínar, dottaði og vonaði að enginn myndi nýta tækifærið og hrifsa af mér allar eigur mínar. Konan við hliðina á mér í virtist samt hafa auga með mér á milli þess sem hún borðaði djúpsteiktan kjúkling og franskar upp úr handtöskunni sinni og þurrkaði sér í gamalt dagblað sem hún fann á lestargólfinu. Ég fékk samt ekki mikla hvíld því strax um morguninn stukkum við upp í rútu til Boston.

Boston var alveg yndisleg. Síðast þegar ég fór þangað (árið 2005) fékk ég svo skelfilega vondan mat (ef hægt er að kalla bragðlausan mat vondan). En, mér til mikillar ánægju, var það ekki tilfellið í þetta sinn. Við hittum mömmu, frænku og ömmu hans Elmars þar og áttum einstaklega skemmtilegar stundir yfir mat og drykk. Við fórum meðal annars á mjög góðan eþíópískan stað (engar myndir samt, því miður) og fengum að borða allskyns rétti með brauði (lesist: með höndunum) og reyndum að skola því niður með dísætu eþíópísku hunangsvíni. Ég held að þetta sé í allra fyrsta sinn sem ég klára ekki vín úr glasinu mínu. Svo fengum við okkur ostaköku á Cheesecake Factory og gæddum okkur á gufusoðnum humar síðasta kvöldið okkar. Ég get því auðveldlega mælt með matarferð til Boston.

En kannski ég fari að útskýra tildrög þessarar færslu. Ég mætti upp á John F. Kennedy flugvöll á leið til Íslands alltof snemma og alveg banhungruð eftir langa og óþægilega ,shuttle’ ferð. Af því tilefni ákvað ég að splæsa í mig einu salati á einni af okurbúllunum á vellinum (hvað er eiginlega málið með að leyfa manni bara að velja á milli McDonalds og einhverjum fáránlega dýrum og fremur mislukkuðum veitingastöðum?!). Ég ákvað að fá mér sesar salatið þeirra og þar sem ég var nú einu sinni svöng þá borgaði ég þó nokkra dollara í viðbót til að fá kjúkling á salatið. Ég átti eiginlega ekki til orð þegar ég fékk heilan romaine kálhaus með þremur risavöxnum brauðtengingum ofan á og grillaðan kjúkling með (a.m.k.) dagsgömlu, eiturþurrkuðu tómatsalsa. Ég gúffaði þetta auðvitað í mig en mér fannst þetta vera ansi langt frá því að vera góð útfærsla. Þannig að ég sór þess eið að ég myndi búa til gott sesar salat þegar ég væri komin aftur heim í eldhúsið mitt.

Ég leitaði vítt og breitt að uppskrift sem mér fannst ég ætti að geta treyst þegar ég mundi að Inga vinkona mín (matargúru með meiru) hafði mælt með uppskrift frá Jamie Oliver. Ég ákvað því að skella mér á hana og fiffaði hana aðeins lítillega til. Það var líka sumt í uppskriftinni sem gekk ekki alveg eins vel upp og Jamie vildi telja mér trú um. Brauðteningarnir urðu eiginlega bara blautir og óspennandi við það að liggja í fitunni af kjúklingnum og beikoninu þannig að ég dreifði þeim á bökunarpappír og skellti þeim aftur inn í ofn og eftir nokkrar mínútur urðu þeir stökkir og fínir. Þetta gæti samt hafa orsakast sökum þess að beikon hérna í Bandaríkjunum er alveg sjúklega feitt, hefði ég notað pancetta (eins og Jamie mælir með) þá hefði botninn á mótinu kannski ekki orðið svona mikill fitupollur. Séu þið (eða þeir sem þið eruð að elda fyrir) eitthvað smeykir við ansjósur þá mæli ég nú bara með að prófa það samt. Þegar ansjósurnar hafa verið marðar og blandaðar saman við créme fraiche, sítrónu og olíu þá hverfur sterka bragðið af þeim og þær gefa dressingunni fyllingu og gott saltbragð. (Sleppið því bara að segja hinum matvöndu frá því).

Sesar salat

(Jamie Oliver)

  • 4 heilir kjúklingaleggir (þ.e. læri og leggur)
  • 1 hleifur ciabatta brauð, rifið eða skorið í teninga
  • 3 rósmarínsprotar, laufin tekin af og gróflega söxuð
  • 3 tímíansprotar, laufin tekin af og gróflega söxuð
  • Sjávarsalt og ferskur pipar
  • 12 þunnar sneiðar beikon eða pancetta (reynið að nota fitulítið beikon)
  • 1/2 hvítlauksgeiri
  • 4 ansjósuflök
  • 75 g rifinn parmesanostur
  • 1 stór msk créme fraiche
  • 1 sítróna, safinn kreistur úr
  • Extra-virgin ólívuólía
  • 2 eða 3 hausar romainekál

Aðferð:

Forhitið ofninn, 200°C.

Setjið kjúklingaleggina, brauðteningana, rósmarín og tímían í meðalstórt eldfast mót og hellið smá ólívuólíu yfir. Kryddið með salti og pipar og veltið svo öllu hráefninu í mótinu til að þekja kjúklinginn og brauðteningana. Setjið kjúklinginn yfir brauðteningana og stingið síðan mótinu inn í ofn. Eldið í 45 mínútur.

Takið mótið úr ofninum og leggið beikonsneiðarnar yfir kjúklinginn. Setjið aftur inn í ofn og eldið í ca. 20 mínútur. Þá ætti beikonið að vera orðið stökkt og brauðteningarnir einnig. (Hér þurfti ég að taka brauðteningana úr mótinu og setja aftur inn í ofn, sjá að ofan). Passið að kjúklingurinn er eldaður í gegn og setjið til hliðar.

Merjið ansjósuflökin og hvítlaukinn í mortéli þangað til að allt maukast saman. Færið maukið yfir í skál og blandið créme fraiche, parmesan, sítrónusafa og extra-virgin ólívuolíu (miðaðu við 3x meira en sítrónusafa af olíu) saman við. Hrærið þetta vel saman og smakkið til með smá salti og pipar.

Skerið kjúklinginn niður í bita (eða rífið hann niður) ásamt beikoninu. Rífið niður laufinn á kálhausnum og setjið á stóran disk eða í skál. Blandið kjúklingnum, beikoninu, brauðteningunum og dressingunni saman við og berið fram.

Fyrir 4.

5 athugasemdir Post a comment
  1. Guðný Ebba #

    Namm!!! Uppáhalds salatið mitt!

    25/11/2010
  2. Guðný Ebba #

    Jess! Ég var á undan Elmari! SUCCESS!

    25/11/2010
  3. Emmi #

    Ég var búinn að segja það sem ég vildi segja einfaldlega með því að opna munninn og tala.

    Þannig að ég vinn.

    25/11/2010
  4. Erla #

    að mæta úber snemma á flugvelli er ótrúlega sniðugt, ég held að ef við værum að ferðast saman að þá myndum við koma deginum áður á völlinn.

    25/11/2010
  5. Auður #

    Ég á alltaf frönskur og kjúlla í handtöskunni minni. Welcome back matarsnillingur.

    25/11/2010

Færðu inn athugasemd við Auður Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: