Skip to content

Cobb salat

Það er orðið ansi langt síðan ég setti inn færslu síðast en ég hef afsökun! Við hjónin flúðum hitann í New York og fórum til New England með vinum okkar. Þau leigja hús í Hanover í New Hampshire (þar sem Dartmouth háskólinn er) og við vorum þar í einstaklega góðu yfirlæti í einu stærsta húsi sem ég hef komið inní. Við hjóluðum um Vermont, fórum í fjallgöngu, heimsóttum fæðingarstað Jospephs Smiths Jr. (stofnanda Mormónakirkjunnar) og fórum í brugghús. Við borðuðum heilan helling af maís og ég verð að segja að sá maís sem ég hef verið að borða sem krakki á Íslandi er eitthvað allt annað. Maísinn þarna var svo ferskur – enda fengum við hann beint af ekrunni – hann var sætur með hnetukeim og algjört lostæti, ólíkt þessu svínafóðri sem við fáum heima.

Bandaríkin eru einstaklega áhugaverður staður og það er margt svo sláandi ólíkt því sem við þekkjum í Evrópu. Bandaríkjamenn taka til dæmis ,frelsið’ sitt mjög alvarlega og þetta var sérstaklega augljóst þegar við vorum í New Hampshire. Allir bílar sem skráðir eru í því fylki hafa númeraplötu sem bera þessi einkunnarorð:

Hitinn í borginni hefur lítið sem ekkert lækkað, sólin skín og á daginn fer hitinn ekki undir þrjátíu gráðurnar. Ég var samt sem áður mjög svöng í gær og ákvað þess vegna að búa til matarmikið salat. Ég hef oft fengið Cobb salat hjá pabba mínum og það er alveg himneskt. Með uppskriftina frá honum og uppskrift sem ég fann á Smitten Kitchen til hliðsjónar bjó ég til alveg svaðalega gott salat. Cobb salatið var fyrst búið til á fjórða áratugnum á veitingastað í Hollywood og var nefnt eftir eiganda staðarins, Mr. Robert Cobb. Ég held sjálf að þetta salat geti ekki klikkað enda er það samansett af svo bragðgóðu hréfni. Ég meina, það er beikon í þessu! Þetta tók okkur svolítinn tíma að undirbúa en við vorum ekkert mjög skipulögð í gærkvöldi. Það er best að byrja á að steikja kjúklinginn (hann þarf að kólna áður en honum er bætt út í salatið) og harðsjóða eggin.

Cobb salat

Salatsósa:

1 msk rauðvínsedik

1 msk sítrónusafi

2 tsk dijonsinnep

1 hvítlauksrif, smátt saxað

1/2 tsk Worcestershire sósa

1/2 tsk salt

1/2 tsk sykur

1/2 tsk pipar

1 1/2 dl ólívuolía (extra-virgin)

Þeytið allt saman nema olíuna. Hellið henni síðan út í mjórri bunu og þeytið þar til allt hefur blandast vel. Smakkið og bætið við pipar og salti eftir smekk. Sósan endist í ca. viku ef hún er geymd í lokuðum umbúðum inni í ískáp.

Salatið:

1/2 iceberg kálhaus, takið kjarna úr og rífið kálið

1/2 romaine kálhaus, gróft saxaður

50 g gráðostur, mulinn

6 beikonsneiðar, vel steiktar og skornar í munnbita

1 kjúklingabringa, steikt með salti og pipar á pönnu, látið kólna og skerið svo í 2 sm teninga

3 harðsoðin egg, skorin í 2 sm teninga

2 meðalstórir tómatar, skornir í 2 sm teninga

1 avókadó, skorið í 2 sm teninga

2 msk graslaukur, smátt saxaður

Dreifið kálinu á botninn í stórri skál. Setjið kjúklingateningana ofan á, bætið síðan við beikoni, tómötum, osti, avókadó og eggjum. Annaðhvort: 1) hellið salatsósu yfir og blandið vel, stráið graslauknum síðan yfir eða 2) berið fram án þess að blanda saman og hafið salatsósuna á borðinu fyrir hvern og einn til að hella yfir.

fyrir 3 – 4

6 athugasemdir Post a comment
  1. Embla #

    Cobb salat er yummy.

    08/09/2010
  2. Inga Þórey #

    Namminamminamm! Hljómar unaðslegt og ég ætla að láta manninn minn gera svona fyrir mig fljótlega :-) Ég er mikill aðdáandi svona amerískra salata sem eru djúsí og sveitt…en við hér á Íslandi verðum að láta iceberg duga, ég hef amk ekki séð romaine í búðum mjög lengi!

    08/09/2010
  3. Guðný Ebba #

    Þú ert svo mikill kvenkostur hjartað mitt, að ef þú værir ekki harðgift þá myndi ég slá eign minni á þig ! ;)

    08/09/2010
  4. Teitur #

    Mér sýnist að þetta salat slái við mínu Cobbi enda sé ég að hráefnið er nokkrum skölum hærra. Svo hvet ég alla til að setja google translate á og lesa kommentið hennar Guðnýjar Ebbu. Kemur einstaklega fyndið út.

    09/09/2010
  5. Salbjörg #

    Jömmí in mæ tömmí. Líst gríðarvel á þetta. Hlakka til að koma í heimsókn ;)

    11/09/2010
  6. Kristín #

    Inga Þórey: Ég keypti íslenskt Romaine salat í Bónus í síðustu viku :)

    Ég ætla að prófa þetta salat á morgun, hljómar yndislega!

    13/09/2010

Færðu inn athugasemd við Embla Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: