Skip to content

Ravíólí með parmaskinku, mozzarella og glóðaðri papriku

Við vorum í góðu yfirlæti hjá vinum okkar í Chapel Hill (sem er í Norður Karólínu) um helgina. Það er alltaf mjög gaman að komast úr borginni og fá að upplifa þá hlið á Bandaríkjunum sem er mjög fjarlæg New York. Það fyrsta sem við gerðum eftir lendingu var að fara á fylkishátíðina sem haldin var í Raleigh. Þarna býðst manni að fara í skemmtitæki, skjóta af alvöru byssu á heystakka og þarna eru haldnar miklar gripasýningar þar sem bændur keppast við að vinna fyrstu verðlaun fyrir kálfa/beljur/naut/endur/hænur o.s.frv. Við sáum meira að segja eina beljuna fá lagningu frá ungum dreng, með hárblásara og þykkum bursta (að sjálfsögðu). Síðast en ekki síst bauðst manni alls konar matur. Og þegar ég segi alls konar þá meina ég alls konar djúpsteiktur matur. Djúpsteiktar ostakökur, djúpsteikt óríókex, djúpsteikt epli, djúpsteikt macaroni og cheese…listinn heldur áfram. Það þarf því kannski ekki að minnast á að allt svæðið var hulið steikingarmistri strax um hádegið. En við prófuðum ýmislegt. Á fyrstu myndinni að ofan heldur Elmar á súkkulaðihúðuðu beikoni á priki, myndin þar á eftir sýnir djúpsteikta eplabita. Við fengum okkur líka besta pretzel sem við höfum smakkað og ég tók svo mynd af ,,corn dogs“, djúpsteiktar pyslur í brauði (sem við lögðum reyndar ekki í að smakka). Ég held að súkkulaðihúðaða beikonið hafi samt toppað allt, meira ruglið.

Ég held að ég hafi örugglega verið búin að segja ykkur frá því að pabbi gaf mér pastavél þegar hann kom í heimsókn í haust. Og það er búið að koma mér á óvart hvað það er gaman að búa til sitt eigið pasta og fletja það út í svona handknúinni græju. Ég fékk allaveganna kikk út úr því. Kosturinn er auðvitað að pastað verður betra og bragðmeira og mér líður alltaf mjög vel þegar ég veit nákvæmlega hvað er í matnum sem ég er að búa til. Það er nefnilega ekki alltaf svo augljóst, sérstaklega á þessum hluta jarðkringlunnar. Það er hægt að sjóða allt pastað í einu en það er líka sniðugt að búa til mikið magn og kæla það (ef það á að nota annan skammt innan við viku) eða þurrka það og þá á pastað að geymast í allt að mánuð. Og ef maður býr til eins mikið af pastaréttum og við þá borgar það sig alveg. Svo þarf maður strangt til tekið ekki svona græju til að búa til heimatilbúið pasta, það er hægt að nota kökukefli í staðinn en það er víst mjög erfitt að ná deiginu eins þunnu og í vélinni. Svo er vélin mín líka rauð og falleg og hin mesta prýði þannig að kökukeflið fær að dúsa ofan í skúffu.

Aðalvesenið við að búa til ravíólí er að ná að búa til koddana þannig að allt loft fari úr koddanum (því annars áttu á hættu að koddarnir springi í sjóðandi vatninu og þá fer allt út um allt). Það eru auðvitað til græjur til að auðvelda ravíólígerðina en þar sem ég er ekki beint með mikið aukapláss í pínkulitla eldhúsinu mínu og þar sem það er hægt að búa þetta til í höndunum þá hugga ég mig bara við það að þetta hljóti að koma með æfingunni. Því ef ég á að vera alveg hreinskilin þá var þetta ansi groddalegt ravíólí hjá mér – koddarnir voru eiginlega of stórir og ansi misvel gerðir. Sjá:

Eins og ég segi, aðaltrikkið er að gera sjálfa koddana, allt annað er mjög einfalt. Það eru í raun (a.m.k.) tvær leiðir til að gera þá. Þú getur annaðhvort skorið langan bút, set fyllinguna á miðju annars helmingsins, bleytt helminginn sem fyllingin er á og lokað með því að leggja auða helminginn yfir og síðan þétta. Þú getur líka skorið niður minni lengjur og lagt fyllinguna í miðju ferningsins, bleytt í kring og lokað með því að leggja annan bút yfir, og þétta. Ég gerði þetta með síðarnefndri aðferðinni en gæti trúað því að sú fyrrnefnda sé einfaldari. (Þetta er á miklu tilraunastigi ennþá sjáið til). Ég miðaði við að bútarnir væru jafnbreiðir hönd minni þegar ég skar þetta til.

Þegar seinni búturinn hefur verið lagður yfir þá þarf að loka með því að strjúka einni hliðinni þéttingsfast (svo að bútarnir límist saman) frá fyllingunni út að enda. Gerið hið sama við hliðina beint á móti. Þegar síðustu hliðunum er lokað þá er mikilvægt að strjúka frá fyllingunni upp að enda svo að sem mest loft náist úr koddanum. Skerið ravíólíið til frá öllum hliðum.

Pastadeig

(Jamie Oliver: The Naked Chef)

  • 500 g hveiti
  • 5 egg

Aðferð:

Setjið hréefni í matvinnnsluvél og leyfið henni að vinna í ca. 30 sekúndur. Deigið ætti þá að vera mjúkar misstórar kúlur.

(Ef þú átt ekki matvinnsluvél þá hrærirðu eggin og blandar þeim síðan saman við hveitið.)

Hnoðið deigið þangað til það verður slétt og mjúkt áferðar.

Hyljið allt deigið með plastfilmu og geymið í ísskáp í klukkutíma.

Takið deigið síðan út, skiptið því í fjóra parta og vinnið með einn hluta í einu. Það þarf að hylja þá hluta sem ekki er verið að vinna með með plastfilmu því annars myndar deigið húð sem torveldar meðhöndlun.

Ravíólí með parmaskinu, mozzarella og glóðaðri papriku

(Jamie Oliver: The Naked Chef)

  • 1 handfylli parmesan ostur, rifinn
  • 1 handfylli fersk basilíka, rifin
  • 2 glóðaðar paprikur (roasted pepper) úr krukku; eða 12 sólþurrkaðir tómatar, gróflega saxaðir
  • 2 stórar kúlur mozzarella ostur, gróflega saxaður
  • Salt og ferskur pipar
  • 10 sneiðar parmaskinka, fitan skorin frá og hver sneið skorin í tvennt
  • Ólívuolía

Aðferð:

Blandið saman parmesan ostinum, basilíkunni, paprikunni/tómötunum og mozarella ostinum saman í skál, smakkið til með salti og pipar.

Setjið eina stóra teskeið af fyllingunni við annan endann á skinkunni, brettið hliðarnar á skinkunni inn á við og rúllið skinkunni síðan upp. Þá ætti fyllinginn að vera umvafin skinkunni. Gerið þetta við alla skinkubitana og þá ættirðu að vera með 20 litlar kúlur.

Búið til ravíólí (eins og lýst er að ofan) og setjið síðan í pott með hægsjóðandi söltuðu vatni í ca. 3 til 4 mínútur.

Gott er að bera þetta fram á beði af aragúla með ólívuolíu, svörtum pipar, parmesan og ferskri basilíku.

Fyrir 4

4 athugasemdir Post a comment
  1. Emmi #

    Súkkulaðihúðað beikon er einfaldlega það versta sem til er. Að ég hafi étið þetta.

    26/10/2010
  2. Embla #

    Vá, hvað þetta er mikið nammi!!

    27/10/2010
  3. Þóra ítöslkumatarskjúlingur #

    Lekkert í æðra veldi!

    27/10/2010

Trackbacks & Pingbacks

  1. Búsáhöld | Eldað í Vesturheimi

Færðu inn athugasemd við Þóra ítöslkumatarskjúlingur Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: