Okkur var boðið til Brooklyn í mat á Þakkargjörðarhátíðinni. Vinur okkar, Ástralinn Ben, var svo góður að bjóða okkur að vera hjá honum og herbergisfélögum sínum í Bushwick þar sem þau buðu þrettán manns í alvöru þakkargjörðarhátíðarmat. Bushwick er fyrrum iðnaðarhverfi en búið er að breyta heilu verksmiðjunum í íbúðarhúsnæði. Þetta tekst misvel en íbúðirnar eru yfirleitt ódýrar með risastóru sameiginlegu rými og herbergjunum skipt niður með spónaplötum. Þannig að þeim tókst að gera (það sem aðeins múltímilljónamæringum er fært að gera á Manhattan) stórt matarboð mögulegt. Þannig að þarna settumst við niður ásamt stórri fjölskyldu frá Texas og hámuðum í okkur kalkún, glóðaðan aspas, grillað rósarkál, tvenns konar fyllingu, maísbrauð, spínatsalat, kartöflumús og sósu. Og þetta var alveg mikilfenglegt. Við rúlluðum út með mataróléttumaga og létt af rauðvíni. Ég vona bara að við fáum aftur boðsmiða að ári.
Kalkúnninn var risastór og einstaklega ljúffengur.

Og við gerðum matnum góð skil:


Ég ákvað að prófa nýja rétti úr asísku matreiðslubókinni hennar Hemu Parekh og bauð vinkonu okkar í mat til að hafa ástæðu til að búa til tvo rétti. Salatið kom mjög vel út og ég hugsa að ég eigi eftir að hafa það oftar með asískum mat enda er það fljótlegt, ferskt og sterkt – ekki slæmir eiginleikar það. Ég tók því bara rólega í eldhúsinu en eins og svo oft áður þá fannst mér ég vera komin í tímaþröng undir rest. Ekki vanmeta það að tælenskur matur krefst snöggra handtaka og því er best að vera búin að taka allt til áður en kveikt er undir pottinum.
Það voru alls kyns asískar sérvörur í innihaldslista uppskriftarinnar þannig að ég dreif mig niður í Kínahverfið og í stærstu matvöruverslunina þar, Hong Kong Supermarket. Verslunin er mjög skemmtileg, þar geturðu keypt hin ótrúlegustu hráefni á mjög góðu verði og þannig búið til asískan mat sem bragðast eins og það sem maður fær yfirleitt bara á veitingahúsum. En verslunin brást mér illa í þetta sinn. Þeir áttu ekki fersk chili, engin límónulauf, og ekkert galangal. Ég leitaði á öllum stöðum sem mér datt í hug í Kínahverfinu klyfjuð innkaupapokum frá Hong Kong og spurði starfsfólk og götusala (sem flest talaði ekki ensku) með frekar ruglingslegu látbragði hvort þeir ættu þessar vörur og hvar ég gæti fengið þær. Enginn árangur. Ég endaði því í Wholefoods sem einungis áttu fersk chili en sögðust ekki hafa séð límónulauf í langan tíma. Þannig að ég fór heim með engifer í staðinn fyrir galangal og límónur í staðinn fyrir límónulauf.

Ég var frekar svekkt að vera ekki með þau hráefni sem áttu að vera í réttinum og þá sérstaklega að hafa ekki límónulaufin. Ég reif niður börk af einni límónu í staðinn fyrir að nota laufin til að fá eitthvað límónubragð í réttinn. Ég notaði líka engiferrót í staðinn fyrir galangal, en þau eru af sömu rótarættinni. Ég ákvað líka að vera ævintýraleg og keypti ferskan bambus til að hafa í réttinum en þegar ég var komin heim með hann þá fannst mér hann lykta eitthvað furðulega þannig að ég setti aðeins nokkur grömm af honum. (Sem betur fer því að nógu sterkt var bragðið af honum í réttinum þegar allt var tilbúið). Ég hugsa því að ég muni halda mig við að kaupa bambus úr áldós í framtíðinni. En rétturinn var gómsætur þrátt fyrir brasið og óheppnina. Spyrjið bara Elmar sem fékk sér þrisvar sinnum á diskinn (konunni hans til mikillar ánægju). Og eins og áður með þessa tælensku karrírétti þá er hægt að skipta út eða minnka innihald á sumum hráefnum fyrir svínakjöt, kjúklingakjöt eða annað grænmeti.

Líkar við:
Líka við Hleð...