Skip to content

Posts from the ‘Tælenskt’ Category

Tælensk karrísúpa með núðlum og risarækjum

Ég er smám saman að venjast móðurhlutverkinu. Svona í gegnum móðuna sem svefnleysi og brjóstagjöf skapa. Dagarnir líða hratt og mér finnst ég varla farin á fætur þegar það fer að rökkva og ég berst við að halda augunum opnum. Ég var eiginlega búin að gleyma hversu hratt það haustar á Íslandi og hversu ótrúlega stutt þessi árstíð er hérna heima. Mér finnst eins og veturinn sé rétt handan við hornið með tilheyrandi skammdegi og kulda. Satt best að segja sakna ég milda haustsins í New York og ég sé bændamarkaðinn okkar í hillingum þegar ég hugsa um matargerð þessa dagana. En haustfegurðin á Íslandi er mikil og við ákváðum að fara í bíltúr á Þingvelli til að njóta litanna og veðursins í gær. Mér þykir afskaplega vænt um Þingvelli en ég vann þar sem landvörður nokkur sumur og þekki því þjóðgarðinn mjög vel.

Það er orðið alltof langt síðan ég setti inn færslu af einhverju sem ekki er sætt og eftirréttarvænt. Og með lækkandi sól og hitastigi er tilvalið að malla súpu. Þessi súpa er ofboðslega góð, hún er krydduð og með miklu engiferi og sítrusávöxtum. Núðlurnar og kartöflurnar gera hana matarmikla og seðjandi og mér finnst mjög mikilvægt að strá fullt af ferskum kóríanderlaufum yfir súpuskálina. Ég notaði risarækjur en upprunalega uppskriftin notaði kjúklingabringur og því má auðvitað skipta rækjunum út fyrir ódýrara hráefni. Ég notaði alltof mikið af núðlum þegar ég bjó réttinn til þannig að ég hef minnkað magnið töluvert í uppskriftinni hér að neðan.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælenskir kjúklingaleggir + asískt hrásalat með mangói og myntu

Ég er, svona almennt séð, frekar viðutan manneskja en undanfarið hefur jarðtenging mín fjarlægst um nokkur ljósár. Stundum ranka ég við mér inni á baði og hef ekki hugmynd um af hverju í ósköpunum ég fór þangað inn, ég les efni fyrir doktorsritgerðina mína og fatta klukkutíma seinna að ég hef ekki meðtekið eitt einasta orð og um daginn labbaði ég út að ruslatunnu og fattaði ekki að ég hafði gleymt að taka ruslapokann með mér út fyrr en ég opnaði lokið. Við Elmar áttum þriggja ára brúðkaupsafmæli á mánudaginn og höfðum ákveðið, með ágætum fyrirvara, að prófa loksins einn eftirsóttasta matsölustaðinn í hverfinu. Ég hlakkaði mikið til, skoðaði matseðilinn á netinu og var búin að ákveða allt það góðgæti sem ég ætlaði að smakka.

Svo rann mánudagurinn upp og um miðjan dag fattaði ég að ég hafði keypt kjúkling daginn áður, búið til marineringu og ætlað að elda hann um kvöldið. Sama kvöld og við ætluðum út að borða! Ég þurfti að tilkynna manninum mínum að í staðinn fyrir að fara fínt og skemmtilegt út að borða þá yrðum við að borða tælenskan kjúkling og hrásalat. Ég var á þvílíkum bömmer. Það er, þangað til að við smökkuðum kjúklinginn og salatið. Því þessi kjúklingur var svo góður og hrásalatið svo ferskt og fallega litað með brakandi kasjúhnetum að ég hreinlega gat ekki fengið nóg. Ég læddist m.a.s. inn í eldhús rétt fyrir svefninn og skóflaði afgöngunum í mig í miklu græðgiskasti.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælenskir sumarréttir

Ég er nýkomin til Íslands í stutt stopp. Þegar ég lenti á Keflavíkurflugvelli var heiðskírt og fallegt en þriggja stiga hiti. Þriggja! Daginn sem ég fór frá New York var 30 stiga hiti og sól. Það var því úfin, ferðaþreytt og úrill ég sem gekk á móti Suðurnesjavindinum úr Leifsstöð.

Við nýttum samt síðustu dagana í hlýjunni í New York vel. Við eyddum tveimur dögum í Brooklyn þar sem við flökkuðum á milli bjórgarða og skoðuðum ný svæði þar sem næsta húsnæði okkar gæti leynst. Við settumst út á kvöldin, fengum okkur vínglas og nutum þess að eiga nokkra frídaga saman – en það hefur ekki farið mikið fyrir þeim þessa önnina.

En þrátt fyrir veður og vind þá er alltaf gott að koma ,heim’. Ég saknaði brauðostsins í risaumbúðunum, kalda ferska vatnsins úr krananum og fiskréttanna úr Fylgifiskum. En ég saknaði þó sérstaklega þagnarinnar, tístsins í fuglunum og gjallið í Tjaldinum í fjörunni fyrir utan gluggann minn heima hjá mömmu og pabba. Kærkomin breyting frá hinum stanslausa niði og hávaða stórborgarinnar.

Ég vildi auðvitað komast í eldhúsið sem fyrst og búa til einhverja dásemd handa fjölskyldunni minni. Að lokum ákvað ég að búa til tvo rétti sem hafa lengi verið á matardagskránni. Ég bjó til tælenskan hrísgrjónarétt með ananas og nautakjöti en í forrétt hafði ég djúpsteiktar risarækjur í bjórdeigi. Ég var reyndar eins og hauslaus hæna í eldhúsinu þeirra til að byrja með. Skipulagið ruglaði mig í ríminu og ég ætlaði aldrei að finna nauðsynleg hráefni og tól. Pabbi greip loks inn í  og gaf mér ráðleggingar varðandi steikingu á kjötinu (þar sem ég elda næstum því aldrei kjöt úti) og ananashreinsun. Útkoman var mjög ljúffeng. Ég breytti frá uppskriftinni og hafði soja- og chilimarinerað nautakjöt í staðinn fyrir tofu til að gefa réttinum aðeins meiri hita (og auðvitað sem afsökun til að matreiða kjöt). Djúpsteikingin á rækjunum var aðeins ævintýralegri, sem ótalmargir litlir brunablettir bera vott um, en þær voru svo ljúffengar umvafðar stökku djúpsteiktu bjórdeigi.

SJÁ MEIRA

Tælenskt vatnsmelónusalat

Það er liðinn rúmur mánuður frá því ég setti inn færslu síðast. Ég skammast mín svolítið og vona að fólk haldi ekki að ég sé hætt, því það er ég svo aldeilis ekki. Ég er reyndar búin að vera mikið að heiman þennan mánuðinn og ég hef líka átt erfitt með að finna innblástur til að elda eitthvað nýtt. En nú er ég endurnærð og farin að leggjast yfir uppskriftir og matarblogg af jafnmiklum áhuga og áður. Ég var svo heppin að fá að ferðast til Eistlands til að taka þátt í námskeiði fyrir framhaldsnema í heimspeki og ég var þar í góðu yfirlæti í rúma viku.

Eftir brösulegt ferðalag aftur heim til New York þar sem ég lenti í seinkun á flugi, yfirheyrslu og þröngu miðjusæti þá drifum við hjónin okkur upp í rútu og fórum til Boston þar sem við hittum foreldra og systur Elmars. Að segja að það hafi verið dekrað við okkur þar myndi engan veginn ná að lýsa því lúxuslífi sem við lifðum þessa helgi. Við borðuðum einstaklega góðan mat, skoðuðum borgina og nutum þess að vera saman.

En það er líka gott að vera komin í hversdagsleikann aftur. Elmar er sestur við skrifborðið og skrifar og les af miklum eldmóð og ég er farin að vinna aftur í litlu vafasömu bókabúðinni. New York hefur tekið vel á móti okkur og skartar sínu fegursta. Sólin skín og hitinn er um og yfir 20 gráður, trén skarta fallegum litlum hvítum og bleikum blómum og borgarbúar spássera um í nýuppteknum sumarfötum. Ég nýt þess að geta lagt vetrarkápuna mína til hliðar og er strax farin að plana hvað ég get matreitt til að taka með í lautarferð í Miðgarð um helgina.

Í þessum sumaryl er auðvitað bara við hæfi að fá sér salat í kvöldmat og eftir miklar pælingar ákvað ég að skella mér á tælenskt vatnsmelónusalat úr upppáhaldsbókinni minni eftir Jamie Oliver (Jamie’s Dinners). Ég hef aðeins breytt frá upprunalegu uppskriftinni og birti þá uppskrift hér að neðan. Salatið var einmitt það sem þurfti eftir langan og heitan dag. Vatnsmelónan var svo fersk og blandaðist vel með ostinum og kryddjurtunum, og salatsósan ásamt kóríanderblöðunum gáfu salatinu asískan keim. Vonandi fer sumarið að klekja sig út á Skerinu fagra svo þið getið skorið í salat og borðað út á palli.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælenskt grænt karrí & asískt chili agúrku salat

Okkur var boðið til Brooklyn í mat á Þakkargjörðarhátíðinni. Vinur okkar, Ástralinn Ben, var svo góður að bjóða okkur að vera hjá honum og herbergisfélögum sínum í Bushwick þar sem þau buðu þrettán manns í alvöru þakkargjörðarhátíðarmat.  Bushwick er fyrrum iðnaðarhverfi en búið er að breyta heilu verksmiðjunum í íbúðarhúsnæði. Þetta tekst misvel en íbúðirnar eru yfirleitt ódýrar með risastóru sameiginlegu rými og herbergjunum skipt niður með spónaplötum. Þannig að þeim tókst að gera (það sem aðeins múltímilljónamæringum er fært að gera á Manhattan) stórt matarboð mögulegt. Þannig að þarna settumst við niður ásamt stórri fjölskyldu frá Texas og hámuðum í okkur kalkún, glóðaðan aspas, grillað rósarkál, tvenns konar fyllingu, maísbrauð, spínatsalat, kartöflumús og sósu.  Og þetta var alveg mikilfenglegt. Við rúlluðum út með mataróléttumaga og létt af rauðvíni. Ég vona bara að við fáum aftur boðsmiða að ári.

Kalkúnninn var risastór og einstaklega ljúffengur.

Og við gerðum matnum góð skil:

Ég ákvað að prófa nýja rétti úr asísku matreiðslubókinni hennar Hemu Parekh og bauð vinkonu okkar í mat til að hafa ástæðu til að búa til tvo rétti. Salatið kom mjög vel út og ég hugsa að ég eigi eftir að hafa það oftar með asískum mat enda er það fljótlegt, ferskt og sterkt – ekki slæmir eiginleikar það. Ég tók því bara rólega í eldhúsinu en eins og svo oft áður þá fannst mér ég vera komin í tímaþröng undir rest. Ekki vanmeta það að tælenskur matur krefst snöggra handtaka og því er best að vera búin að taka allt til áður en kveikt er undir pottinum.

Það voru alls kyns asískar sérvörur í innihaldslista uppskriftarinnar þannig að ég dreif mig niður í Kínahverfið og í stærstu matvöruverslunina þar, Hong Kong Supermarket. Verslunin er mjög skemmtileg, þar geturðu keypt hin ótrúlegustu hráefni á mjög góðu verði og þannig búið til asískan mat sem bragðast eins og það sem maður fær yfirleitt bara á veitingahúsum. En verslunin brást mér illa í þetta sinn. Þeir áttu ekki fersk chili, engin límónulauf, og ekkert galangal. Ég leitaði á öllum stöðum sem mér datt í hug í Kínahverfinu klyfjuð innkaupapokum frá Hong Kong og spurði starfsfólk og götusala (sem flest talaði ekki ensku) með frekar ruglingslegu látbragði hvort þeir ættu þessar vörur og hvar ég gæti fengið þær. Enginn árangur. Ég endaði því í Wholefoods sem einungis áttu fersk chili en sögðust ekki hafa séð límónulauf í langan tíma. Þannig að ég fór heim með engifer í staðinn fyrir galangal og límónur í staðinn fyrir límónulauf.

Ég var frekar svekkt að vera ekki með þau hráefni sem áttu að vera í réttinum og þá sérstaklega að hafa ekki límónulaufin. Ég reif niður börk af einni límónu í staðinn fyrir að nota laufin til að fá eitthvað límónubragð í réttinn. Ég notaði líka engiferrót í staðinn fyrir galangal, en þau eru af sömu rótarættinni. Ég ákvað líka að vera ævintýraleg og keypti ferskan bambus til að hafa í réttinum en þegar ég var komin heim með hann þá fannst mér hann lykta eitthvað furðulega þannig að ég setti aðeins nokkur grömm af honum. (Sem betur fer því að nógu sterkt var bragðið af honum í réttinum þegar allt var tilbúið). Ég hugsa því að ég muni halda mig við að kaupa bambus úr áldós í framtíðinni. En rétturinn var gómsætur þrátt fyrir brasið og óheppnina. Spyrjið bara Elmar sem fékk sér þrisvar sinnum á diskinn (konunni hans til mikillar ánægju). Og eins og áður með þessa tælensku karrírétti þá er hægt að skipta út eða minnka innihald á sumum hráefnum fyrir svínakjöt, kjúklingakjöt eða annað grænmeti.


SJÁ UPPSKRIFTIR

Massaman karrí

Ég dró Elmar með mér suður í Kínahverfið í gær til að versla hráefni í þetta gómsæta karrí. Að fara þangað er eins og að stíga inn í annan heim, allir (með fáum undantekningum) tala kínversku eða víetnömsku, öll skilti eru á kínversku og maður finnur ótrúlegustu hráefni í matarmörkuðunum. Mér finnast skúringarföturnar með lifandi froskum í skemmtilegastar, þeir láta mann fá tangir svo maður getur dregið upp úr feitasta og ljótasta froskinn. Ég hef reyndar ekki reynt það ennþá en kannski ef ég finn girnilega froskauppskrift þá læt ég á það reyna.

Þessi uppskrift er smá breyting á uppskrift úr bókinni The Asian Vegan Kitchen eftir Hemu Parekh. Ég og dóttir Hemu erum mjög góðar vinkonur og við vorum nánast óaðskiljanlegar þegar við vorum saman í skóla í Tokyo. Ég eyddi því nokkrum árum í eldhúsinu hennar Hemu og hún var mjög dugleg að gefa mér að borða (sérstaklega þar sem ég var mjög dugleg að borða). Maturinn hennar er það ljúffengasta sem ég hef smakkað og ég er mjög spennt yfir bókinni hennar. Ég fæ reyndar oft hroll yfir orðum eins og ,,gluten-free“ og ,,vegan“ því ég á bara erfitt með að skilja slíkar sérþarfir í mataræði. En í rauninni er mjög mikið af mat í Asíu ,,vegan“ matur þar sem mjólkurvörur og kjöt eru alls ekki nauðsynleg uppistaða í réttum þar og því er ég alls ekki afhuga þessari bók.

Það er auðvelt að leika sér með þessa uppskrift. Það má minnka magn af kartöflum og skipta út fyrir kjúkling, tófú eða svínakjöt, það má líka nota sveppi í þennan rétt. Ef þú vilt milda laukbragðið þá geturðu steikt laukinn í pönnu þangað til hann verður glær áður en honum er bætt við réttinn. Ég mæli svo með að bera réttinn fram með sjóðandi heitum jasmín hrísgrjónum.


SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: