
Það er búið að vera mjög gott veður hjá okkur, alveg fáránlega gott. Ég man að fyrsta janúarmánuð okkar hérna úti þá var mikið rok, mikið frost og mikill snjór. Ég átti bara eina ,vetrarskó’ sem voru hriplekir og dugðu engan veginn í allt slabbið og íspollana sem mynduðust við göturnar. Ég vann fyrir lúsarlaun í bókabúð við Columbia og ég tímdi því engan veginn að kaupa mér almennilegan skófatnað. Nannan sem ég er í dag myndi húðskamma þá Nönnu enda eru góðir skór undirstaða þess að líða vel í borg þar sem bílar eru óþarfir.

Þetta góða veður hefur hvatt okkur til að vera meira úti og í gær fórum við í langan göngutúr um Prospect Park í von um að Þórdís myndi sofa í meira en klukkutíma (svona einu sinni). Það gekk ekki eftir en við áttum þó indælan göngutúr þrjú saman í þokunni og logninu. Trén eru ber, grasið er fölt og engin blóm að sjá en á fallegum degi sem þessum þá hefur garðurinn samt mikinn sjarma.

En nóg af veðri því mig langar aðeins til að segja ykkur tildrög þess að ég leitaði þessa uppskrift uppi. Daginn eftir að við komum aftur út til Brooklyn frá Íslandi með Þórdísi Yrju þá vorum við frekar buguð. Ferðalagið gekk svolítið brösulega, taska týndist og íbúðin okkar var illa útleikinn eftir leigjandann. Við vorum ósofin, á kafi í þrifum, Elmar með ofsafengið ofnæmi og stúlkan okkar var svolítið óvær eftir allt húllumhæið. Þennan dag kom vinkona okkar færandi hendi. Hún hafði keypt alls kyns góðgæti úr sælkerabúð í Williamsburg og meðal þess voru fallegar ostakökubrownies.

Nú verð ég að viðurkenna að ég er alls ekki hrifin af ostakökum. Ég veit ekki nákvæmlega hvað veldur því. Oft fæ ég mér einn til tvo bita og finnst kakan frábær en svo er eins og allt fari á hraða niðurleið og ég fæ mig ekki til að borða meira en smá smakk. En ostakökudeig og browniedeig bakað saman er eitthvað stórfenglegt. Sætt og súkkulaðimikið browniebragð með óvæntu fersku og eilítið súru bragði frá ostakökunni. Þessar brownies eru svo skuggalega góðar að ég hef stungið þeim inn í frystinn svo ég freistist ekki til þess að borða þær allar í einu. Uppskriftina fann ég á Smitten Kitchen en ég hef breytt henni eftir eigin smekk. Ég hef minnkað sykurmagnið allverulega og myndi alls ekki vilja hafa kökuna sætari.

Líkar við:
Líka við Hleð...