Skip to content

Posts from the ‘Núðlur’ Category

Kaldar núðlur með pækluðu grænmeti og kóríander

Það er komið sumar í borginni og ég gæti ekki verið glaðari. Konurnar eru farnar að ganga í fallegu sumarkjólunum sínum, garðurinn er þéttsetinn og bændamarkaðurinn verður meira spennandi með hverri vikunni. Ég ætla njóta hitans og rakans til fullnustu áður en ég flyt aftur heim til Íslands. Eini gallinn á gjöf Njarðar er sá að íbúðin okkar verður mjög heit og það er erfitt að berjast gegn þunga loftinu sem sest þar að. Eigendurnir eru ekki byrjaðir að kæla og því reyni ég að kveikja sem minnst á eldavélinni og ég er í sjálfskipuðu banni frá ofninum þar til veðrið kólnar eða kveikt verður á kælingunni.

Ég var að fletta í gegnum nýjasta tölublað Bon Appétit en þar er að finna mjög sumarlegar uppskriftir. Meðal þeirra er þessi fíni núðlusalatsréttur sem er einfaldur, ferskur, ódýr og maður þarf aðeins að kveikja á eldavélinni til að sjóða núðlurnar. Allt hráefni ætti að fást í hann heima nema kannski daikon*. Daikon er japönsk rófa, hvít að lit, fremur vatnsmikil og mild á bragðið. Það ætti samt ekki að saka að skipta henni út fyrir radísur eða jafnvel venjulega rófu. Við vorum mjög hrifin af þessum rétti og ég hugsa að hann verður vikulega á matseðlinum í sumar.

*Daikon er víst kínahreðka og ætti að fást í Bónus (takk fyrir upplýsingarnar Inga Hlín).

SJÁ UPPSKRIFT

Soba með wakame og sesamfræjum

Elmar fer til Riga í dag þar sem hann mun eyða nokkrum dögum í að hlusta á og tala um heimspeki. Ég væri örugglega svolítið afbrýðissöm ef ég ætti ekki von á systur minni á allra næstu dögum. Ég hlakka ofboðslega mikið til enda eru ferðir hennar til New York með skemmtilegri viðburðum ársins. Við erum ansi samstilltar þegar það kemur að ferðalögum. Einu búðirnar sem farið er í eru vín-, matar- og búsáhaldabúðir og dagarnir snúast um rólega göngutúra, bakstur, mat og drykki.

Þessi réttur er kannski ekki allra. Ég er mjög hrifin af þurrkuðum þara og get auðveldlega borðað heilan pakka ein – sérstaklega með bjór. En sumir eru ekki á sama máli og til að fíla þennan rétt þá þarf manni að finnast þari bragðgóður. Annars má örugglega sleppa þaranum og setja ofnbakað eggaldin í staðinn. Jafnvægið í réttinum er  með besta móti – ferskleikinn frá agúrkunum og kryddjurtunum vegur vel á móti seltunni í þaranum og sesamfræin gefa smá kröns. Sósan er sæt, súr og með smá chilihita. Þetta er stór skammtur og seðjandi. Hann entist okkur Elmari í þrjár máltíðir.

SJÁ UPPSKRIFT

Soba með eggaldini og mangó

Ayesha vinkona mín gaf mér bókina Plenty fyrir nokkru og ég tók mér góðan tíma í að fletta í gegnum hana áður en ég ákvað hvaða uppskrift mig langaði til að prófa fyrst. Kannski ætti það ekki að koma mér á óvart að sá réttur sem ég staldraði oftast við var sobanúðluréttur. Þegar ég bjó í Japan borðaði ég ógrynni af núðlum og í sérstöku uppáhaldi hjá mér var yakisoba – pönnusteiktar núðlur með káli, engiferi og kjúklingi í ótrúlega ljúffengri sósu. Ég hef margoft reynt að búa til yakisoba utan Japans en ég næ aldrei að framkalla þetta sérkennilega bragð sem ég varð svo hrifin af.

Þessi réttur er þó ekki mjög japanskur þótt hann noti klassískar japanskar núðlur en það kemur þó ekki að sök. Rétturinn er einstaklega léttur en þó seðjandi, sætan í mangóinum vegur vel upp á móti lauknum og olíusteiktu eggaldinu og heill haugur af ferskum kryddjurtum setur punktinn yfir i-ið. Við höfum búið þennan rétt til tvisvar núna og hann endist okkur tveimur auðveldlega í  þrjár máltíðir. Ottolenghi mælir líka með því að búa hann til og leyfa honum að hvílast í einn til tvo klukkutíma áður en hann er borinn fram. Ég hef ekki gert það ennþá en hugsa að það sé mjög sniðugt að búa þennan rétt til næst þegar við fáum fólk í mat. Þá hef ég kannski tíma til að bursta á mér hárið og þvo mér í framan áður en gestirnir mæta.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælensk karrísúpa með núðlum og risarækjum

Ég er smám saman að venjast móðurhlutverkinu. Svona í gegnum móðuna sem svefnleysi og brjóstagjöf skapa. Dagarnir líða hratt og mér finnst ég varla farin á fætur þegar það fer að rökkva og ég berst við að halda augunum opnum. Ég var eiginlega búin að gleyma hversu hratt það haustar á Íslandi og hversu ótrúlega stutt þessi árstíð er hérna heima. Mér finnst eins og veturinn sé rétt handan við hornið með tilheyrandi skammdegi og kulda. Satt best að segja sakna ég milda haustsins í New York og ég sé bændamarkaðinn okkar í hillingum þegar ég hugsa um matargerð þessa dagana. En haustfegurðin á Íslandi er mikil og við ákváðum að fara í bíltúr á Þingvelli til að njóta litanna og veðursins í gær. Mér þykir afskaplega vænt um Þingvelli en ég vann þar sem landvörður nokkur sumur og þekki því þjóðgarðinn mjög vel.

Það er orðið alltof langt síðan ég setti inn færslu af einhverju sem ekki er sætt og eftirréttarvænt. Og með lækkandi sól og hitastigi er tilvalið að malla súpu. Þessi súpa er ofboðslega góð, hún er krydduð og með miklu engiferi og sítrusávöxtum. Núðlurnar og kartöflurnar gera hana matarmikla og seðjandi og mér finnst mjög mikilvægt að strá fullt af ferskum kóríanderlaufum yfir súpuskálina. Ég notaði risarækjur en upprunalega uppskriftin notaði kjúklingabringur og því má auðvitað skipta rækjunum út fyrir ódýrara hráefni. Ég notaði alltof mikið af núðlum þegar ég bjó réttinn til þannig að ég hef minnkað magnið töluvert í uppskriftinni hér að neðan.

SJÁ UPPSKRIFT

Vorlauks- og engifernúðlur með pækluðum gúrkusneiðum


Það er fellibylur á leið upp austurströndina og stefnir á New York.  Strætóar hætta að ganga og borgarstjórinn hefur ákveðið að stöðva allar lestarsamgöngur í borginni frá og með hádegi í dag. 370 þúsund manns hafa þurft að rýma heimili sín þar sem flóðahætta er talin skapast af ofsaviðrinu. Við fórum í búðina í gærkvöldi til að kaupa mat fyrir næstu daga (enda ekki víst að búðir geti verið opnar þegar samgönguleiðir lokast) og hittum þar fyrir nánast alla í stóra hverfinu okkar. Raðirnar voru lygilega langar og brauð- og kartöflusnakkshillur voru galtómar. Við erum mjög róleg yfir þessu öllu saman og ætlum bara að hafa það notalegt á milli þess sem við pökkum niður íbúðinni. Ég hef reyndar smá áhyggjur af gluggunum sem eru svo illa einangraðir að í miklu úrhelli þá rignir inn um þá. Annars verður bara fróðlegt fyrir veðurnörd eins og mig að fylgjast með veðuráhrifum fellibylsins. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem varað er við miklum veðurofsa síðan við fluttum og ég á enn eftir að upplifa slíkt.
En nóg af veðri. Mig langar til að deila með ykkur einfaldri, ódýrri og ljúffengri núðluuppskrift. Við erum þegar búin að borða þennan rétt þrisvar sinnum á nokkrum dögum og ég býst við að hann verði reglulega á boðstólum í vetur. Hægt er að eiga krukku af pækluðum gúrkum og sósu inni í ísskáp og þá þarf bara að sjóða núðlur og steikja smá grænmeti með. Maturinn er þannig til á innan við 10 mínútum og er seðjandi á meðan gúrkurnar gefa honum ferskt mótvægi.
Uppskriftin segir að maður eigi að nota vínkjarnaolíu bæði í sósuna og í steikinguna á grænmetinu. Ég átti ekki slíkt við höndina og notaði ólívuolíu í sósuna og canolaolíu í steikinguna í staðinn. Ég ætla mér samt að fjárfesta í vínkjarnaolíu bráðlega þar sem ég býst við að búa til þennan rétt reglulega. Það er hægt að skipta út blómkálinu fyrir annað grænmeti (eða kjöt) sem til er í ísskápnum. Ég notaði sobanúðlur en það er auðvitað hægt að nota ódýru pakkanúðlurnar líka.

SJÁ UPPSKRIFT

Linguine með sveppum, sítrónu og kryddjurtum

Það er afskaplega gott veður í New York þessa dagana og ég reyni að passa að njóta þess áður veturinn heldur innreið sína í líf okkar. Ég verð að viðurkenna að ég fæ væg kvíðaköst þegar ég hugsa til þess hvað mér var hrikalega kalt síðasta vetur. Elmar finnur að vísu minna fyrir þessu en ég og vinir okkar hérna úti verða oft forviða þegar ég kvarta undan kulda. ,,En þú ert frá Íslandi! Hvernig getur þér verið kalt?” Eins og við séum einhver erfðabreyttur kynstofn sem er svo harðger að hann finnur ekki fyrir frosti. Pff. En það er ekki vetur núna heldur er dásamlegt sumar með sól og 34° hita og ég elska það. Þessi hiti gerir það samt að verkum að ég finn ekki fyrir mikilli lyst á þungum hægeldaðum mat. Fyrir utan að það er ekkert grín að standa lengi fyrir framan eldavélina okkar í þessum hita. Ég ákvað því á leiðinni í Whole Foods í dag að versla í einn uppáhaldsréttinn okkar frá hinni unaðslegu Nígellu.

Þessi réttur er svo fáránlega einfaldur að það ætti ekki að vera hægt að klúðra honum. Að minnsta kosti hef ég ekki klúðrað honum hingað til og ég er ansi lunkin við að klúðra hinum ótrúlegustu hlutum. Sítrónan gefur ó-svo ferskt bragð og sveppirnir í þessu sítrónu-kryddjurtalegi verða alveg ómótstæðilegir. Uppskriftin segir að það eigi að nota cremini sveppi en ég hef líka notað þessa venjulegu hvítu sveppi sem eru alltaf til heima með góðum árangri. Mér finnst rétturinn ekki fullkomnaður án fersks pipars og parmesanosts og persónulega finnst mér að það eigi alls ekki að borða hann án þess að hafa hvítvín við hönd.

 

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: