Skip to content

Posts from the ‘Grænmetisréttur’ Category

Hrísgrjón með sítrónugrasi, tófú og kasjúhnetum

Sólin heldur áfram að skína og blómin spretta upp úr beðunum á methraða og trén eru farin að hylja nekt sína með fíngerðum hvítum blómum. Vorið er sérstaklega falleg árstíð í stórborginni . Það er þó ennþá a.m.k. mánuður í að bændamarkaðurinn fari að selja eitthvað annað en rótargrænmeti og epli en ég bíð spennt eftir berjunum, aspasnum og rabarbaranum (þó ég eigi enn eftir að venjast því að þurfa að borga fyrir rabarbarann).

Ég hef aldrei eldað tófú sjálf. Mér finnst sjálfri tófú ágætlega gott (sé það rétt matreitt) en einhvern veginn hefur mér aldrei dottið í hug áður að teygja mig eftir pakkningunni í búðinni og skella því í rétt. En það mun sko breytast eftir þessa frumraun mína. Ég fann þessa uppskrift á eldhúsblogginu The Kitchn og varð strax hrifin. Þeir mæla með því að þrýsta vökvanum úr tófúinu, velta því síðan upp úr sojasósu og baka í ofni í ca. hálftíma. Við þetta verður tófúið svolítið stökkt að utan en mjúkt og eilítið seigt að innan og er frábær (og mjög holl) viðbót við asíska rétti. Rétturinn var mjög góður og seðjandi með skemmtilegri asískri bragðblöndu af hvítlauki, engiferi, sítrónugrasi og chilí. Það má auðvitað gera þetta að kjötrétti með því að snöggsteikja sojamaríneraða kjötbita á pönnu.

SJÁ UPPSKRIFT

Kálsalat með ristuðum möndlum

Eins og ég minntist á í síðustu færslu þá fórum við hjónin í Þakkargjörðarveislu hjá vinum vina okkar. Þarna voru samankomnir útlendingar, Bandaríkjamenn, kettir og heil ósköp af forriturum. Við tróðum okkur inn í litla íbúð (lítil á íslenskum mælikvarða en ansi stór á mælikvarða New Yorkbúa), hlóðum borðið af alls kyns góðgæti og átum og drukkum í marga klukkutíma. Þessi hátíð er alveg stórskemmtileg og það er alltaf jafn yndislegt hvað Kaninn er gestrisinn og liðlegur þegar kemur að því að ,ættleiða’ fólk á þessum degi. Ég tók nokkrar myndir og þær eru að finna hér.

Við Elmar bjuggum til þrjá rétti – þetta salat, matarbollur eftir uppskrift frá Suðurríkjum Bandaríkjanna (birtist síðar) og hálfmisheppnaðan rósakálsrétt. Cressida vinkona okkar kom með brjálæðislega góða kartöflustöppu og borðið fylltist fljótlega af blómkálsquiche, tyrkneskum kjötbökum, sætri kartöflumús með pecanhnetum og sykurpúðum og svo mætti lengi telja. Það þarf því kannski ekki að taka fram að við ultum heim á leið svo södd að ég hélt ég þyrfti ekki að borða næsta mánuðinn. Ég elska að það skuli vera nokkrir dagar á ári þar sem maður er í góðum félagsskap og getur borðað fullt af góðum mat, drukkið gott vín með, hlaðið í sig eftirréttum og legið svo á meltunni í matarvímu eftir á. Og ég fæ ekkert samviskubit yfir hversu mikið ég nýt þess.

Þetta salat er brakandi ferskt og vínagrettan er sterk en passar mjög vel við kálið. Það veitti sérstaklega gott mótvægi við magnið af þungum og saðsömum réttum á borðinu. Það er mikið bit í kálinu og það passaði mjög vel við ristuðu möndlurnar og seltuna í parmesanostinum. Salatið sló reyndar alveg í gegn og var einn uppáhaldsréttur margra í veislunni. Það er gott eitt og sér en ég hugsa að það sé einstaklega sniðugt sem meðlæti með kjöt- og fuglaréttum.

SJÁ UPPSKRIFT

Quesadillur með graskeri og glóðaðri papriku

Ég er mjög hrifin af quesadillum. Þær eru góð leið til að nýta afganga, frábær afsökun til að borða bráðinn ost á brauðmeti og taka enga stund að matreiða. Í þetta sinn átti ég afgang af graskeri frá því að ég bjó til þennan pastarétt og leitaði uppi sniðuga leið til að nýta restina. Að lokum fann ég þessa uppskrift hjá Smitten Kitchen (Deb klikkar aldrei) og rótaði í frystinum okkar í leit að mexíkóskum hveitikökum.

Quesadillur eru sáraeinfaldar. Fyllingin er dreifð yfir hálfa hveitikökuna, osti stráð yfir, helmingnum lokað, penslað með smá ólívuolíu eða smjöri og steikt á heitri pönnu. Olían gerir það að verkum að hveitikakan myndar stökka og gyllta skorpu utan um heita fyllinguna. Osturinn bráðnar og límir hveitikökuna saman og gefur fyllingunni aðeins syndsamlegra bragð.

Okkur finnst best að borða quesadillurnar okkar með sterku salsa, fersku guacamole og (stundum) sýrðum rjóma. Það er líka gott að eiga þær í nesti því þær eru góðar kaldar og eru auðveldur fingramatur.


SJÁ UPPSKRIFT

Linguine með ,akarn’graskeri og salvíu

Þó að ég elski að elda þá koma dagar sem ég horfi hálf-stjörfum augum á eldhúsið og get ekki hugsað mér að eyða of löngum tíma þar inni. Þessir dagar virðast skjóta upp sínum letihaus oftar eftir því sem líður á þessa fyrstu önn mína í doktorsnáminu. Samviskupúkinn á öxlinni segir mér að eigi að halda mig við skólabækurnar en ekki pottana. Með síkvartandi maga ákvað ég að elda mér einfaldan og fyrirhafnarlítinn pastarétt í hádeginu í gær. Ég er mjög ánægð með útkomuna og finnst þetta vera frábær og öðruvísi leið til að nýta öll graskerin sem eru tekin upp á þessum tíma. Ég notaði ,akarn’grasker (e. acorn squash) en ég hugsa að það sé hægt sé að hverskyns grasker. Ef þau eru mjög stór þá þarf líklega bara að njóta fjórðung.

SJÁ UPPSKRIFT

Gulróta- og lárperusalat


Ég er búin að setja mér markmið. Ég ætla að halda þessum kryddjurtum á lífi í a.m.k. tvo mánuði. Ég er undirbúin. Jurtirnar eru komnar í leirpotta, í nýja mold og hafa fengið vænan skammt af áburði. Ég keypti harðgerar jurtir sem þurfa ekki vatn á hverjum degi og þurfa ekki 16 klukkustundir af birtu á dag. Ef þær deyja, þá gæti ég endað snöktandi úti í horni. Þetta verða gæludýrin mín næstu vikurnar og lifandi skulu þær vera fyrir jól! En ef þið lumið á einhverjum sniðugum ráðum varðandi svona ræktun þá megið þið endilega deila þeim með mér í athugasemdakerfinu. Ég er nefnilega lítið gefin fyrir að bugast og snökta. Dagsljósið er farið að hverfa úr íbúðinni ansi snemma þessa dagana og ég á eftir að sakna þess að taka myndir í náttúrulegri birtu í gluggakistunni okkar. Ég tók fyrst eftir þessu í dag þegar ég ætlaði að labba með afrakstur kvöldeldamennskunnar út í glugga og uppgötvaði að niðadimmt var orðið úti. Ég hafði búið til þennan stórgóða, einfalda, holla og ódýra rétt í kvöldmatinn. Gulræturnar keypti ég á grænmetismarkaðinum um helgina beint frá uppáhaldsbóndanum mínum og ég er svo ánægð með hversu vel þær fengu að njóta sín í þessu salati. Lárperurnar og sítrónusafinn voru ferskt mótvægi við sætuna sem ofnbaksturinn dró fram í gulrótunum og rétturinn var ótrúlega saðsamur. Það er gott að bera réttinn fram með smá sjávarsalti svo að hver og einn geti kryddað eftir sínum eigin smekk, ég vildi hafa frekar mikð salt á gulrótunum mínum.

SJÁ UPPSKRIFT

,Butternut’-graskerssúpa

Ef það er eitthvað sem ég hef alltaf saknað við Ísland þegar ég er fjarri þá er það einangrunin í húsunum og ofnkyndingin. Það er ekkert grín að vakna í íbúð sem er ísköld og það er ekkert sem þú getur gert í því. Þegar ég bjó í Edinborg og var að skrifa ritgerðir í desember þá sat ég á milli tveggja rafmagnsofna, í lopapeysu, föðurlandi, íslenskum lopasokkum, með grifflur og húfu og drakk heitt te af miklum móð í örvæntingafullri tilraun til að halda á mér hita. Nú hefur haustið hafið innreið sína í Brooklyn en það er ekki byrjað að hita kofann. Við vöknuðum því í gærmorgun köld, slöpp og kvefuð og drógum fjall af lopaklæðnaði úr fataskápnum. Það var því tilvalin dagur til að kveikja á ofninum, baka grænmeti og malla súpu.

Ég hafði keypt tröllvaxið ,butternut’grasker af bændamarkaðnum deginum áður. Ég skar það í tvennt, skellti því inn í ofn og leyfði því að bakast þar í rúman klukkutíma. Graskerið er sætt fyrir en verður enn sætara við ofnbakstur. Ég setti múskat og salvíu í súpuna en ég held að hún sé líka góð með karríkryddi, chili, geitaosti, timíani eða engiferi. Möguleikarnir eru margir og auðvelt að leika sér með uppskriftina.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: