Skip to content

Posts from the ‘Grænmetisréttur’ Category

Gulrótarsalat með lárperum, klettasalati og sýrðum rjóma

Síðustu vikur hafa einkennst af miklum gestagangi, svefnþjálfun Þórdísar Yrju og óhóflegri kaffidrykkju. Ég er búin að raða í mig Sörunum sem ég bakaði fyrir örfáum dögum og eitthvað gengur á súkkulaðibirgðirnar mínar sem ég ætlaði að nota í bakstur. Mig langaði því sárlega í eitthvað sem jafnaði þetta allt saman út. Ég pakkaði Sörum í dall og gaf vinum okkar, lofaði sjálfri mér að eiga súkkulaði í eina smákökuuppskrift og dró fram þessa uppskrift að hollu gulrótarsalati.

Þegar ég rek augun í gulrætur þá hugsa ég alltaf um Karíus og Baktus plötuna mína sem ég hlustaði oft og mörgum sinnum á sem barn. Þar rifjar Baktus (eða var það Karíus?) upp þá skelfilegu tíma þegar Jens borðaði bara ,,rúgbrauð og gulrætur“. Ég hef því lengi staðið í þeirri trú að gulrætur hljóti að vera eitthvað það hollasta sem náttúran hefur upp á að bjóða.

Ég greip vönd af þessum fallegu gulrótum á bændamarkaðinum síðustu helgi. Sennilega fara gulræturnar alveg að hverfa úr uppskerunni hjá okkur og því var kjörið tækifæri að búa til eitthvað gott úr þeim. Mér finnst svo gaman að kaupa gulrætur sem eru alla vega á litinn og hafa ólík blæbrigði í bragði. Réttirnir verða líka einstaklega litríkir og fallegir.

Þetta salat er í miklu uppáhaldi hjá Elmari og er í raun fyrirhafnarmeiri útgáfa af gulrótarrétti sem ég hef búið til áður. Gulræturnar eru soðnar og síðan ofnbakaðar með bragðmikilli kryddblöndu, lárperur eru sneiddar og velt uppúr dressingu ásamt gulrótunum og síðan er brauði, klettasalati og örlitlum sýrðum rjóma bætt við. Svo má skreyta réttinn með fræjum – t.d. sesam- eða birkifræjum. Fallegt og bragðgott!

SJÁ UPPSKRIFT

Rósakálssalat með eplum og heslihnetum

Hérna vetrar aðeins seinna en á Íslandi og það er greinilegt að árstíðaskiptin nálgast. Prospect Park skartaði þó ennþá haustlegri fegurð þegar við litla fjölskyldan fórum í gönguferð á Þakkargjörðardag. Þórdís Yrja vex og dafnar hratt og er farin að sýna mjög sterkan vilja. Þetta gerir það að verkum að ég er ekki búin að skrifa mikið, ekki byrjuð að baka jólasmákökur og þegar ég ætlaði að skreyta íbúðina um daginn náði ég einungis að setja upp eina og hálfa ljósaseríu. En hún gerir dagana svo skemmtilega að ég sýti það ekki hvað tíminn flýgur frá mér.

Í öllum þessum hasar reyni ég að gleyma því ekki að borða. Ég átti afgang af rósakáli frá Þakkargjörðinni sem ég notaði í þetta frískandi salat. Ég er mjög hrifin af því að nota hnetur í salöt og var mjög hrifin af því að nota heslihnetur í þetta skiptið.

SJÁ UPPSKRIFT

Frittata með ricotta og kryddjurtum

Mér varð að ósk minni á fimmtudaginn. Við vorum boðin í Þakkargjörðarmat hjá vinum okkar í hverfinu en þau voru að þreyta frumraun sína í að elda heilan kalkún og með því. Maturinn tókst svona ljómandi vel og við eyddum nokkrum klukkutímum í að borða í rólegheitunum. Ég bjó til salat og skonsur en gerðist svo djörf að kaupa graskersböku á markaðnum í staðinn fyrir að baka hana sjálf (þessi litli tímaþjófur gerði það ómögulegt). Ég hafði aldrei áður smakkað graskersböku og verð að viðurkenna, þar sem ég hafði mínar efasemdir, að hún er alveg ljómandi góð. Kannski ég taki mig til og galdra fram eina slíka að ári.

Við fengum vini okkar í heimsókn í hádeginu og ég ákvað að finna eitthvað fljótlegt og létt til að gefa þeim. Ég hafði keypt lífræn egg, ilmandi blaðlauk og ricottaost úr geitamjólk á markaðinum um morguninn og þessi fallegu hráefni rötuðu í þennan stórgóða eggjarétt. Frittata er ítölsk tegund af ommelettu og er töluvert auðveldari en hin klassíska franska (sem krefst smá tækni og æfingar – sjá hér). Frábær og fyrirhafnarlítill hádegisréttur.

SJÁ UPPSKRIFT

Penne með ofnristuðu blómkáli, valhnetum og fetaosti

Eins gaman og mér finnst að stússast í eldhúsinu þá þarf ég að finna einhverjar klókar leiðir til að koma mér þangað þessa dagana. Þegar fer að líða að kvöldmat og við förum að velta fyrir okkur hvað í ósköpunum við eigum að borða þá heyri ég í hjáróma letirödd í hausnum á mér sem langar alveg óskaplega til að komast hjá því að elda. Gallinn er að mig langar samt ekki til að fara út að borða og mig langar sérstaklega ekki til að ná í einhvern sveittan ódýran skyndibitamat (blegh!). Mig langar í góðan og helst hollan heimatilbúinn mat.

Lausn mín hefur verið að finna fyrirhafnarlitla rétti sem ég kann næstum því utanbókar og get framreitt á hálftíma án þess að snúa eldhúsinu á hvolf. En það vill yfirleitt svo til að þegar ég er loksins komin með skurðarbrettið fyrir framan mig og hressa tónlist á fóninn (Of Monsters and Men er í miklu uppáhaldi hjá mér eins og er) að ég fer að finna fyrir eldhúsframtaksgleðinni aftur. Og ég verð að segja að mér fannst sérstaklega skemmtilegt að matreiða þennan tiltekna rétt. Kannski er það af því að ég er að elda eitthvað nýtt í fyrsta skipti í langan tíma en kannski er það líka gleðin við að búa til eitthvað sem er bæði hollt og ljúffengt. Ég meina, ég get ekki endalaust verið að skófla í mig kartöfluflögum og rjómaís.

Kannski hljómar þessi réttur ekkert sérstaklega spennandi svona til að byrja með. Ég rakst á hann hjá Deb á Smitten Kitchen og hefði ekki hugsað tvisvar um hann nema hún lýsti því yfir að þetta væri einn besti hádegismatur sem hún hafði fengið lengi. Og þegar Deb segir að eitthvað sé gott þá er það yfirleitt svo. Þessi réttur er engin undantekning.  Ég var aldrei neitt sérstaklega hrifin af blómkáli fyrr en ég prófaði að rista það á pönnu og núna finnst mér það svo gott þegar það hefur verið matreitt þannig eða fengið að bakast inn í ofni. Sú matreiðsluaðferð laðar fram einhvern hnetukeim í blómkálinu og það mýkist örlítið en helst samt ágætlega stökkt og gefur frá sér ,kröns’ hljóð þegar maður bítur í það. Þessi réttur er mjög seðjandi, hann er einfaldur í matreiðslu og hann er ó-svo-ódýr. Og þar með lýkur tilraun minni til að sannfæra ykkur.

SJÁ UPPSKRIFT

Hádegisverður að vori

Eitt það skemmtilegasta við að búa í New York er að uppgötva ný hverfi. Við Elmar fórum í göngutúr í sólríku veðri um daginn og ákváðum að labba í nýja átt. Eftir smá labb framhjá eilítið niðurníddum húsum og vanræktum görðum þá komum við að götu þar sem sjá mátti kaffihús, bari, veitingastaði og litlar fallegar búðir hvert sem við litum. Ég fann blómasala sem seldi mér stóran vönd af gulum blómum á þrjá dali og trítlaði heim með bros á vör. Þessi litla vin í Crown Heights hverfinu býður upp á mjög margt skemmtilegt og við hlökkum til að kanna það frekar í sumar.

Ég er orðin svo afskaplega leið á brauði með osti og sultu. Það er svo auðvelt að detta í einhverja eilífa endurtekningu á hádegismat og undanfarið höfum við gripið alltof oft í brauðpokann. Ég ákvað þess vegna að fara að finna uppskriftir að hollum, fljótlegum og ódýrum lausnum á þessum hádegisvanda. Ég rakst á útgáfu af þessum rétti hjá Joy, varð mjög spennt, pantaði bókina hennar Sophie Dahl af Amazon og hef síðan eldað hann tvisvar í hádeginu handa okkur.

Gleðilega páska!

SJÁ UPPSKRIFT

Fusilli með kúrbít og smjöri

Vorfiðringurinn er farinn að grafa alvarlega undan hæfileika mínum til að einbeita mér að námi. Íbúðin okkar verður bjartari með hverjum deginum, sólin skín í gegnum gardínurnar og allt ryk – hvert einasta rykkorn – sést greinilega. Ég tók því ómeðvitaða ákvörðun um að loka bókinni minni í gær og fara að þrífa íbúðina hátt og lágt. Sem betur fer er íbúðin mjög lítil og nett og því tók þetta ekki of langan tíma. Ég gat m.a.s. setið í síðdegissólinni með læmónaði og dáðst að afreki dagsins.

Ég vildi óska að ég væri eins stórtæk í eldhúsinu. Einhver eldamennskuleti hefur hellst yfir mig og ég hef hvorki viljað hugsa of mikið um hvað eigi að vera í kvöldmatinn né hvort ég nenni að elda það. Ég leita því í gamalkunna og einfalda rétti á meðan ég reyni að finna nýja í bókum og á netinu. Þessa uppskrift fann ég eiginlega fyrir algjöra slysni og rétturinn er einfaldur, ódýr og ófeimin við smjörmagn. Hann er líka ansi gómsætur. Kúrbíturinn er eldaður þar til hann verður afar mjúkur og kúrbítsbragðið kemur vel í gegn í sósunni sem verður til við eldunina. Ég hef samt aðeins breytt frá upprunalegri uppskrift – ég minnkaði smjörmagnið og bæti í staðinn við einni matskeið af jómfrúarolíu.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: