Gulrótarsalat með lárperum, klettasalati og sýrðum rjóma
Síðustu vikur hafa einkennst af miklum gestagangi, svefnþjálfun Þórdísar Yrju og óhóflegri kaffidrykkju. Ég er búin að raða í mig Sörunum sem ég bakaði fyrir örfáum dögum og eitthvað gengur á súkkulaðibirgðirnar mínar sem ég ætlaði að nota í bakstur. Mig langaði því sárlega í eitthvað sem jafnaði þetta allt saman út. Ég pakkaði Sörum í dall og gaf vinum okkar, lofaði sjálfri mér að eiga súkkulaði í eina smákökuuppskrift og dró fram þessa uppskrift að hollu gulrótarsalati.
Þegar ég rek augun í gulrætur þá hugsa ég alltaf um Karíus og Baktus plötuna mína sem ég hlustaði oft og mörgum sinnum á sem barn. Þar rifjar Baktus (eða var það Karíus?) upp þá skelfilegu tíma þegar Jens borðaði bara ,,rúgbrauð og gulrætur“. Ég hef því lengi staðið í þeirri trú að gulrætur hljóti að vera eitthvað það hollasta sem náttúran hefur upp á að bjóða.
Ég greip vönd af þessum fallegu gulrótum á bændamarkaðinum síðustu helgi. Sennilega fara gulræturnar alveg að hverfa úr uppskerunni hjá okkur og því var kjörið tækifæri að búa til eitthvað gott úr þeim. Mér finnst svo gaman að kaupa gulrætur sem eru alla vega á litinn og hafa ólík blæbrigði í bragði. Réttirnir verða líka einstaklega litríkir og fallegir.
Þetta salat er í miklu uppáhaldi hjá Elmari og er í raun fyrirhafnarmeiri útgáfa af gulrótarrétti sem ég hef búið til áður. Gulræturnar eru soðnar og síðan ofnbakaðar með bragðmikilli kryddblöndu, lárperur eru sneiddar og velt uppúr dressingu ásamt gulrótunum og síðan er brauði, klettasalati og örlitlum sýrðum rjóma bætt við. Svo má skreyta réttinn með fræjum – t.d. sesam- eða birkifræjum. Fallegt og bragðgott!