Tvenns konar bökur
Síðustu vikur hafa verið bilaðar – heimsókn tengdaforeldra minna, músagangur og heimsókn pabba míns með smá ritgerðarstressi og svefnrugli Þórdísar blandað saman við. Svo virðist sem við séum búin að ná tökum á músaganginum með tonni af sementi, glerbrotum, lími og vírgrindum. Og nú verð ég að viðurkenna nokkuð sem mér er mjög óljúft að viðurkenna. Ég er lafhrædd við mýs. Á algjörlega órökréttan og frumstæðan hátt. Þegar við heyrðum í þeim inni hjá okkur fór ég ósjálfrátt að skjálfa á beinununum, hnén á mér gáfu sig og ég hlustaði eftir hljóðum með dúndrandi hjartslátt og þvala lófa. Mér leið hrikalega illa inni í íbúðinni og á þessum örfáu vikum hef ég horast niður. Ég er samt öll að koma til. Matarlystin er smám saman að gera vart við sig aftur og ég á auðveldara með að sofna á kvöldin. En eftir situr eilítið sært stolt – ég er ekki nándar nærri eins mikill töffari og ég hélt.
Eftir langt blogghlé býð ég upp á tvær ólíkar útfærslur á sömu grunnuppskriftinni. Fallegar smjördeigsbökur með þeyttum fetaosti og gómsætu áleggi. Bökurnar eru einfaldar í framkvæmd og eru sérstaklega viðeigandi núna hjá okkur þegar vorið hefur gengið í garð með tilheyrandi blómaskrúð og hækkandi hitastigi. Uppskriftina fékk ég úr nýjasta hefti Bon Appétit og er ákaflega ánægð með hvernig tókst til.