Skip to content

Posts from the ‘Grænmetisréttur’ Category

Tvenns konar bökur

Síðustu vikur hafa verið bilaðar – heimsókn tengdaforeldra minna, músagangur og heimsókn pabba míns með smá ritgerðarstressi og svefnrugli Þórdísar blandað saman við. Svo virðist sem við séum búin að ná tökum á músaganginum með tonni af sementi, glerbrotum, lími og vírgrindum. Og nú verð ég að viðurkenna nokkuð sem mér er mjög óljúft að viðurkenna. Ég er lafhrædd við mýs. Á algjörlega órökréttan og frumstæðan hátt. Þegar við heyrðum í þeim inni hjá okkur fór ég ósjálfrátt að skjálfa á beinununum, hnén á mér gáfu sig og ég hlustaði eftir hljóðum með dúndrandi hjartslátt og þvala lófa. Mér leið hrikalega illa inni í íbúðinni og á þessum örfáu vikum hef ég horast niður. Ég er samt öll að koma til. Matarlystin er smám saman að gera vart við sig aftur og ég á auðveldara með að sofna á kvöldin. En eftir situr eilítið sært stolt – ég er ekki nándar nærri eins mikill töffari og ég hélt.

Eftir langt blogghlé býð ég upp á tvær ólíkar útfærslur á sömu grunnuppskriftinni. Fallegar smjördeigsbökur með þeyttum fetaosti og gómsætu áleggi. Bökurnar eru einfaldar í framkvæmd og eru sérstaklega viðeigandi núna hjá okkur þegar vorið hefur gengið í garð með tilheyrandi blómaskrúð og hækkandi hitastigi. Uppskriftina fékk ég úr nýjasta hefti Bon Appétit og er ákaflega ánægð með hvernig tókst til.

SJÁ UPPSKRIFT

Pasta með ,butternut’graskeri og salvíu

Mér finnst alltaf gaman að prófa nýja pastarétti. Ég er orðin mjög hrifin af þeim réttum sem krefjast fárra hráefna og eru því ódýrir en matarmiklir og einfaldir í framkvæmd. Ég keypti stórt butternut grasker um daginn og eldaði þennan pastarétt úr febrúarheftri Bon Appétit. Afganginn af graskerinu nýtti ég svo í hálfa uppskrift af þessari súpu. Pastað og súpan var nægur matur fyrir okkur í fjóra daga og ég klappaði sjálfri mér á bakið fyrir hagsýnina (það fer ekki alltaf mikið fyrir henni hjá mér þegar kemur að mat).

Við vorum hrifin af þessu pasta með slatta af rifnum parmesanosti, nýmöluðum svörtum pipar og örlitlu sjávarsalti stráð yfir. Upprunalega uppskriftin notar pastategundina fiorentini, ég notaði campanelle en þar sem ég held að úrval á pastategundum sé takmarkað á Íslandi þá er sniðugast að nota skrúfur í staðinn þannig að rifna graskerið loði vel við pastað.

SJÁ UPPSKRIFT

Soba með eggaldini og mangó

Ayesha vinkona mín gaf mér bókina Plenty fyrir nokkru og ég tók mér góðan tíma í að fletta í gegnum hana áður en ég ákvað hvaða uppskrift mig langaði til að prófa fyrst. Kannski ætti það ekki að koma mér á óvart að sá réttur sem ég staldraði oftast við var sobanúðluréttur. Þegar ég bjó í Japan borðaði ég ógrynni af núðlum og í sérstöku uppáhaldi hjá mér var yakisoba – pönnusteiktar núðlur með káli, engiferi og kjúklingi í ótrúlega ljúffengri sósu. Ég hef margoft reynt að búa til yakisoba utan Japans en ég næ aldrei að framkalla þetta sérkennilega bragð sem ég varð svo hrifin af.

Þessi réttur er þó ekki mjög japanskur þótt hann noti klassískar japanskar núðlur en það kemur þó ekki að sök. Rétturinn er einstaklega léttur en þó seðjandi, sætan í mangóinum vegur vel upp á móti lauknum og olíusteiktu eggaldinu og heill haugur af ferskum kryddjurtum setur punktinn yfir i-ið. Við höfum búið þennan rétt til tvisvar núna og hann endist okkur tveimur auðveldlega í  þrjár máltíðir. Ottolenghi mælir líka með því að búa hann til og leyfa honum að hvílast í einn til tvo klukkutíma áður en hann er borinn fram. Ég hef ekki gert það ennþá en hugsa að það sé mjög sniðugt að búa þennan rétt til næst þegar við fáum fólk í mat. Þá hef ég kannski tíma til að bursta á mér hárið og þvo mér í framan áður en gestirnir mæta.

SJÁ UPPSKRIFT

Frönsk lauksúpa

Það er búið að vera svo kalt hjá okkur að ég er næstum því komin með heimþrá. Tólf stiga frost, vindur og raki í lofti gera það að verkum að manni líður eins og það sé verið að naga í kinnarnar á manni og nefið sé við það að detta af. Við erum því ekki mjög ötul við að fara út þessa dagana og reynum frekar að læra heima og leika við Þórdísi. Svona fimbulkuldi og mikil innivera kallar á eitthvað ljúffengt sem yljar manni.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikil súpukona. Stundum hef ég reynt að telja mér trú um það, sérstaklega þegar ég ramba á einhverja góða uppskrift (eins og þessa). Ég vildi óska að ég væri ein af þeim sem gæti borðað súpur í öll mál en í nærri því öllum tilfellum þá fæ ég mér smá súpu og borða svo þyngd mína í brauði með smjöri.

Franska lauksúpan hennar Juliu Child er þó undanskilin þessari súpufælni minni. Ég hef skrifað um hana hérna  fyrir löngu síðan, áður en ég fattaði hvernig myndavélar og lýsing virkuðu og því miður gera myndir mínar þar þessari ljúffengu súpu engan greiða. Mig langaði því til að skrifa nýja færslu með nýjum myndum til að hvetja ykkur til að malla þessa súpu því hún ætti engan að svíkja. Hún er mjög einföld en krefst þó smá þolinmæði. Það er mikilvægt að gefa lauknum tíma til að verða dökkgylltur á litinn svo að útkoman verði sem allra best, þetta gæti tekið rétt rúman klukkutíma. Ég stend alltaf í táraflóði þegar ég er að skera lauk og því hjálpar mér mikið að eiga svona mandólín* sem gerir það að verkum að ég er eldsnögg að skera hann niður.

[*Ef þið hafið áhuga á slíkum grip þá sá veit ég að Pipar og salt á Klapparstíg selja hann.]

SJÁ UPPSKRIFT

Ofnbakað blómkál með heslihnetum og granateplafræjum

Ég sá fyrst matreiðslubók eftir Yotam Ottolenghi heima hjá Cressidu vinkonu minni. Bókin, Plenty, var fallega mynduð með einstaklega girnilegum grænmetisréttum og ég einsetti mér að eignast hana. En svo gleymdi ég henni og það var ekki fyrr en nýlega þegar ótalmargir matarbloggarar misstu sig yfir nýjustu bókinni hans að ég stökk á Amazon og pantaði mér þessa nýju bók. Bókin heitir Jerusalem og ég er yfir mig hrifin. Ég er oft mjög spennt fyrir þeim matreiðslubókum sem ég fæ í hendurnar en þessa hef ég ekki getað lagt frá mér.

Jerusalem er eftir þá Ottolenghi og Sami Tamimi en þeir ólust báðir upp í Jerúsalem áður en þeir fluttu til London. Þeir þekktust ekki þá enda ólst Ottolenghi upp í Gyðingahluta borgarinnar en Tamimi í austurhluta hennar, í Arabahverfinu. Núna reka þeir nokkra mjög vinsæla veitingastaði í Bretlandi og eru þekktir fyrir einfaldan en bragðmikinn mat.

Jerusalem er því bók sem einblínir ekki einungis á matarmenningu Gyðinga eða Araba heldur skírskota uppskriftirnar til flestra þeirra mýmörgu menningarhópa í borginni. Ég á eftir að reyna að nálgast sum hráefni sem eru ekki seld í almennum matarmörkuðum hér en ég hlakka mikið til að kíkja í Arabahverfið í Brooklyn til að finna za’atar, harissa og granateplasýróp.

Fyrsti rétturinn sem ég prófaði að elda upp úr bókinni er einfaldur blómkálsréttur (við erum sjúk í blómkál á þessu heimili) með ristuðum heslihnetum og granateplafræjum. Bragðið er ótrúlega margslungið þrátt fyrir fá hráefni og granateplafræin gefa því mikinn ferskleika. Við vorum svo hrifin af honum í gærkvöldi að ég stóðst ekki mátið og stökk út í búð og keypti annan blómkálshaus til að hafa réttinn aftur í hádegismat. Þetta er hugsað sem forréttur eða meðlæti en var alveg nógu saðsamt fyrir þrjá í kvöldmat með smá brauði og hummus.

SJÁ UPPSKRIFT

Sveitabaka með ,butternut’graskeri og sætum lauk

Ég er búin að bíða lengi eftir Smitten Kitchen matreiðslubókinni. Það eru komin þrjú ár frá því að Deb tilkynnti að hún væri farin að vinna að bók og ég hef beðið spennt alveg síðan. Bloggið hennar er í miklu uppáhaldi hjá mér og það er fyrsta matarbloggið sem ég byrjaði að lesa reglulega. Líklega er þetta sú vefsíða sem ég elda hvað mest upp úr enda hefur hún afskaplega sjaldan svikið mig um góða máltíð, hvað þá ljúffengan bakstur. Ég er búin að elda mjög góðan kjúklingarétt upp úr bókinni, reyndi að ofnbaka french toast (sem mistókst hrapallega hjá mér – ekki alveg viss hvers vegna) og ég hef bakað þessa böku tvisvar. Hún er líka alveg ljómandi góð.

butternutgalette1

Eini gallinn við þessa böku er hversu fyrirhafnarmikil hún er. Deb viðurkennir þetta sjálf og hefur því gert uppskriftina svo stóra að hún dugir í alveg þrjár máltíðir fyrir tvo. Mér finnst best að búa til deig fyrir bökur kvöldinu áður og leyfa því að hírast inni í ísskáp yfir nótt. Graskerið þarf að flysja vel, búta niður og baka í ofni. Laukurinn er hægeldaður á pönnu og svo þarf að fletja út deig, blanda fyllinguna og baka bökuna. Sem sagt töluverð fyrirhöfn. En afraksturinn er ljúffengur og bakan er stór og matarmikil.

butternutgalette3

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: