Skip to content

Hversdagsleg súkkulaðikaka

Ég finn mig knúna til að tilkynna að það eru ekki bara kökur, kanillengjur og ís í matinn hjá okkur svona frá degi til dags. Ég er búin að elda margt mjög ljúffengt síðustu vikur en því miður sest sólin hjá okkur um fjögurleytið og allar tilraunir til að taka fallegar myndir af matnum mistakast. Ef ég væri ekki á fullu við að kenna Þórdísi að sofa (ég er ennþá steinhissa á þessum hluta uppeldisins, ég hélt að sá hæfileiki væri meðfæddur) og reyna að læra og skrifa í þá fáu klukkutíma sem ég hef aflögu þá myndi ég kannski elda í hádeginu og nýta dagsbirtuna í myndatökur. En því miður þá held ég að ég þurfi bara að bíða þangað til sólin hækkar á lofti og Þórdís Yrja fer að læra að það gengur ekki að vera vakandi allan liðlangan daginn. Þangað til gæti verið smá skortur á kvöldmatarfærslum á þessari síðu.

Þetta er í annað skiptið sem ég baka þessa köku. Hún er einstaklega einföld, það tekur enga stund að blanda deigið, hún skilur eftir sig lítið uppvask og svo er hún látin bakast inni í ofni við lágan hita í rúman klukkutíma. Útkoman er algjör súkkulaðisprengja. Hún minnir mig svolítið á banana- og súkkulaðiformkökuna sem ég bjó til þegar við fluttum fyrst inn í íbúðina okkar í Brooklyn en er þó ekki eins sæt og syndsamleg. Þessi kaka er frábær með ískaldri mjólk eða sterkum kaffibolla og ætti að höfða til allra sem kunna að meta bragðið af dökku súkkulaði. Þar sem súkkulaðið er aðalhlutverkið í þessari formköku mæli ég með að nota gæðakakóduft í hana til að fá gott og eilítið beiskt súkkulaðibragð.

Hversdagsleg súkkulaðikaka

(Uppskrift frá Smitten Kitchen)

  • 115 g smjör, ósaltað og við stofuhita
  • 180 g ljós púðursykur
  • 100 g sykur
  • 1 egg, við stofuhita
  • 1 bolli [120 ml] buttermilk* eða súrmjólk
  • 1 tsk vanilludropar
  • 190 g hveiti
  • 3/4 bolli [2 dl] hreint kakóduft, ósætt
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1/4 tsk salt

*Buttermilk er álík súrmjólk en er eilítið meira fljótandi. Það má búa til sína eigin með því að blanda saman 1 bolla mjólk og 1 msk sítrónusafa eða ediki, leyfið að standa í 10 mínútur eða þar til mjólkin hleypur í kekki. Annars hef ég oft notað súrmjólk þegar ég er á Íslandi í staðinn með góðum árangri.

Aðferð:

Hitið ofninn í 160°C/325°F.

Notið lítið brauðform (9x5x3 tommur/22x13x7 cm) og smyrjið það vel, sáldrið hveiti ofan í formið og bankið aukahveitið úr forminu. Það má líka leggja bökunarpappír ofan í formið þannig að endar pappírsins hanga fram af báðum megin (þannig má lyfta kökunni beint upp úr mótinu).

Þeytið smjörið í hrærivél eða með handþeytara þar til það er orðið mjúkt og slétt. Bætið púðursykrinum og sykrinum saman við og þeytið þar til allt hefur blandast vel saman. Bætið egginu saman við og þeytið. Bætið buttermilk saman við og þeytið. Bætið vanilludropunum saman við og þeytið. (Á þessum tímapunkti var deigið ekki mjög girnilegt hjá mér en það blandaðist vel saman við hveitiblönduna síðar.)

Takið skálina frá hrærivélinni og sigtið hveitið, kakóið, matarsódann og saltið ofan í hana. Blandið öllu saman með sleif en passið að blanda ekki um of – þá verður kakan of þétt í sér.

Hellið deiginu ofan í mótið. Bakið í miðjum ofni í 60-70 mínútur (kakan mín tók alveg 80 mínútur), eða þar til hún hefur bakast í gegn. Leyfið að kólna í 15 mínútur áður en hún er fjarlægð úr forminu.

Prenta uppskrift

5 athugasemdir Post a comment
  1. Sigurbjörg #

    Sæl og kærar þakkir fyrir að leyfa mér að sjá uppskriftirnar þínar. Er búin að prófa nokkrar og allar heppnast vel. Nú spyr ég af fávisku, hvað er gæðakakóduft? Er eitthvað merki sem þú mælir með sem þú veist að fæst hér á Íslandi?

    09/01/2013
    • Sæl Sigurbjörg. Ég nota oftast Green and Black’s og systir mín segir mér að það fáist líka á Íslandi í flestum matvörubúðum. Ég hef smakkað kökur sem nota t.d. Hershey’s kakóduft og það hefur yfirleitt verið alltof sætt fyrir minn smekk.

      09/01/2013
  2. Erla #

    Girnileg, langar í kaffi til þín

    09/01/2013
  3. Þetta var alveg frábær kaka! Okkur lá of mikið á, til að baka hana í rúma klukkustund svo ég brá á það ráð að breyta aðeins til og baka deigið í muffinsformum. Skammturinn passaði fínt í 12 möffinsform og var dásamlega bragðgott! Takk fyrir okkur :)
    Ég er nærri daglegur gestur og dáist að þér alveg hreint!

    13/01/2013
    • En gaman að heyra :) Og frábær hugmynd að setja deigið í muffinsform! Ég verð að prófa það næst.

      13/01/2013

Skildu eftir svar við Nanna Hætta við svar