Skip to content

Frönsk súkkulaðikaka

Þegar Cressida vinkona mín sagði mér að hún væri farin í sykurbindindi þá datt mér í hug að ég ætti ef til vill að gera slíkt hið sama, enda er ég einstaklega sætindaglöð kona og hefði líklega gott af því að láta sykurinn vera í einhvern tíma. Þetta endaði samt þannig að löngun mín í sykur tífaldaðist og ég féll (næstum því) hvern einasta dag. Til þess að fagna lokum bindindis hennar og sjálfsstjórnarleysi mínu þá ákváðum við að baka saman eitt stykki súkkulaðibombu, þamba rauðvín og horfa á heimildarmyndina Kings of Pastry.

Cressida er líka matarbloggari mikill og við eigum það sameiginlegt að vera óhóflega æstar yfir bloggi Davids nokkurs Lebovitz. Það var því aðeins við hæfi að við reyndum við uppskrift sem bæði er í bók hans Ready for Dessert og er einnig aðgengileg á vefsíðu hans. Við ákváðum að baka köku sem hann vill meina að sé ekki (ahemm) hægt að klúðra. Ekki að við klúðruðum henni en hún þurfti smá tilfæringar. Við klæddum kökuformið nostursamlega í álpappír og fylltum vatn í undirliggjandi mót samkvæmt leiðbeiningum en þegar við drógum álpappírinn frá klukkustund seinna þá hafði gufa sloppið inn í álhjúpinn og kakan var svolítið sósuleg.

Við stungum kökunni bara aftur í ofninn og hún heppnaðist svona líka vel en ég held að það megi auðveldlega koma í veg fyrir þetta með því að hylja fyrst op formisins með álpappír og hylja síðan neðri partinn. Passa þarf einnig að þetta sé heilt stykki af álpappír en ekki bútar.

Bakið, njótið og farið með afgangana í vinnuna – svo þið freistist ekki til að borða alla kökuna sjálf.

Frönsk súkkulaðikaka

(Örlítið breytt útgáfa frá David Lebovitz)

  • 290 g dökkt súkkulaði, saxað eða brotið í bita
  • 200 g smjör, skorið í bita
  • 5 stór egg, við stofuhita
  • 200 g sykur

Aðferð:

Hitið ofninn í 175°C.

Smyrjið hringlaga kökuform (ég notaði 9″ form) með smjöri og stráið smá hveiti eða súkkulaðidufti yfir botninn. Hristið allt aukaduft úr forminu. Setjið til hliðar.

Bræðið smjörið og súkkulaðið saman yfir lágum hita. Hrærið af og til þar til blandan verður mjúk og slétt áferðar.

Hrærið eggin og sykurinn saman í stórri skál. Hrærið svo súkkulaðið saman við þar til blandan verður mjúk og slétt áferðar.

Hellið blöndunni í kökuformið og hyljið opið með álpappír, þéttið vel. Ef kökuformið er ekki alveg vatnsþétt þá skulið þið hylja botninn með álpappír og látið álið ná alveg upp að efri brún formsins. Passið samt að loka fyrst opinu með álpappír annars getur gufa ferðast ofan í formið.

Setjið kökuformið í stærra mót og hellið vatni í mótið þar til það þekur neðri helming kökuformsins.

Bakið í 1 klukkustund og 15 mínútur.

Takið kökuna úr ofninum og athugið hvort hún sé bökuð. Þrýstið kökuna létt með fingri, ef ekkert súkkulaði kemur á puttann þá er kakan tilbúin. Ef hún þarf aðeins lengri tíma er í lagi að baka hana lengur án þess að loka aftur fyrir opið með álpappírnum.

Lyftið (varlega!) kökuforminu upp úr vatnsbaðinu og fjarlægið álpappírinn. Leyfið að kólna í smástund áður en kakan er fjarlægð úr forminu. Leyfið að kólna alveg á kökugrind.

Skerið í þunnar sneiðar og berið fram með rjóma eða rjómaís.

2 athugasemdir Post a comment
  1. Salbjörg #

    Nammi namm! Svona kökur eru syndsamlega góðar. Ég er með svipaða uppskrift (sem ég fékk frá vinnufélaga í mikilli ofþyngd) nema í henni er smá hveiti.

    11/03/2011
  2. Embla #

    Þetta klikkar ekki.

    13/03/2011

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: